Innlent

Hrafn fer fram á stærri lóð

„Ég er orðinn klökkur og verð bara að fara inn strákar mínir,“ sagði Hrafn við ljósmyndara í gær. Fyrir aftan Hrafn stendur stuðningsmaður með flagg í hendi.
fréttablaðið/stefán
„Ég er orðinn klökkur og verð bara að fara inn strákar mínir,“ sagði Hrafn við ljósmyndara í gær. Fyrir aftan Hrafn stendur stuðningsmaður með flagg í hendi. fréttablaðið/stefán
Hrafn Gunnlaugsson leikstjóri segir að lausn kunni að vera í sjónmáli í deilu hans og borgaryfirvalda. Hrafni hefur verið gert að fjarlægja ýmsa muni og mannvirki sem hann hefur komið fyrir fyrir utan lóðarmörk hjá sér á Laugarnestanganum. „Lausnin væri að stækka lóðina, þannig að þetta yrði innan lóðarmarka,“ segir Hrafn og þakkar frænda sínum Jónasi Kristjánssyni, fyrrverandi ritstjóra, fyrir hugmyndina.

Hrafn ætlar á fund með framkvæmdasviði borgarinnar í dag. „Þannig að ég býst við að ég muni nota tækifærið og sækja um að lóðin verði stækkuð,“ segir hann.

Borgin hafði áður framlengt tiltektarfrest Hrafns til föstudags en samt komu verktakar á vegum borgarinnar á svæðið í gær. „Þeir eru á fullu að dæla úr tjörninni. Ég setti seiði þarna fyrir tuttugu árum og þetta verður til þess að silungarnir drepast allir,“ segir Hrafn, sem segist ekki skilja þessar aðgerðir yfirvalda. Þau gangi gegn fyrri orðum sínum með þessu.

Hrafn og borgaryfirvöld hafa rætt þessa hluti um árabil. Þorleifur Gunnlaugsson borgarfulltrúi segir til að mynda að Hrafn hafi þegið tíu milljónir frá Reykjavík fyrir að hætta framkvæmdum á svæðinu árið 2003, en ekki staðið við það samkomulag.- kóþ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×