Fótbolti

Verður Eiður Smári franskur bikarmeistari í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen í leik með Mónakó.
Eiður Smári Guðjohnsen í leik með Mónakó. Mynd/AFP
Mónakó mætir Paris Saint Germain í kvöld í bikarúrslitaleiknum í Frakklandi en leikurinn fer fram á Stade de France. Eiður Smári Guðjohnsen spilaði fyrsta bikarleik Mónakó á tímabilinu og gæti því fengið franskan bikarmeistaratitil á ferilsskránna vinni Mónakó leikinn í kvöld.

Eiður Smári skoraði í vítakeppni þegar Mónakó-liðið sló út Tours í 64 liða úrslitum en Eiður Smári hafði þá komið inn á sem varamaður á 66. mínútu. Eiður Smári sat síðan allan tímann á bekknum í 32 liða úrslitunum þegar Mónakó sló út Olympique Lyon 2-1.

Mónakó hefur fimm sinnum unnið franska bikarinn en það eru liðin 19 ára síðan félagið vann hann síðasta 1991. PSG getur unnið franska bikarinn í áttunda sinn en félagið vann síðast 2006.

Liðin eru bæði um miðja deild og þetta er því eini möguleiki á titli á tímabilinu hjá þeim báðum. Mónakó er í 9. sæti og Paris Saint Germain í 11. sæti en Mónakó vann einmitt 2-0 sigur á PSG í fyrsta leik Eiðs Smára með liðinu síðasta haust.

Mónakó og Paris Saint Germain mættust í bikarúrslitaleiknum 1985 á Parc des Princes en þá vann Mónakó-liðið 1-0.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×