Viðskipti innlent

Hvetur saksóknara til þess að rannsaka endurskoðendur

Valur Grettisson skrifar
Lilja Mósesdóttir.
Lilja Mósesdóttir.

Formaður viðskiptanefndar Alþingis, Lilja Mósesdóttir, hvetur sérstakan saksóknara til þess að kanna hvort það sé grundvöllur til sakamálarannsóknar á málefnum endurskoðendafyrirtækisins PricewaterhouseCoopers (PwC), vegna starfa þeirra fyrir Glitni og Landsbankans fyrir hrun 2008.

„Okkar skoðun er sú að það sé ástæða til þess að sérstakur saksóknari hefji rannsókn á þessu máli," segir Lilja.

Í tveimur skýrslum sem sérstakur saksóknari lét gera fyrir embættið koma fram alvarlega ásakanir á hendur endurskoðendafyrirtækinu. Meðal annars segir í norskri skýrslu um Landsbankann að bankinn hafi í raun verið tæknilega gjaldþrota í árslok 2007.

Þrátt fyrir það kvittaði fyrirtækið undir ársreikninginn sem skýrsluhöfundar segja uppfullann af rangindum og villandi upplýsingum um stöðu bankans.

Lilja vill einnig að ríkið íhugi að höfða skaðabótamál á hendur PwC vegna skuldbindinga bankanna sem féllu á ríkið eftir bankahrunið.

Lilja segir að viðskiptanefnd sé að auki að vinna að úrbætum á lögum um endurskoðendur.

Forsvarsmenn PwC neita ásökunum sem birtast í skýrslum sérfræðinganna.


Tengdar fréttir

Landsbankinn var tæknilega fallinn 2007 - aftur brást PwC

Ef ársreikningur Landsbankans hefði verið réttur árið 2007 þá hefði komið í ljós að eigið fé bankans var undir leyfilegu lágmarki og var því tæknilega fallinn ári áður en hann fór í þrot. Þetta kemur meðal annars fram í norskri skýrslu sem var unnin fyrir embætti sérstaks saksóknara og Viðskiptablaðið greinir frá í dag.

Norska skýrslan: Villandi ársreikningar og falskur hagnaður Landsbankans

Ársreikningur Landsbankans fyrir árið 2007 var rangur og villandi á margvíslegan hátt, hagnaður var falsaður og eigið fé var gróflega ofmetið, að því er fram kemur í skýrslu norska fyrirtækisins LYNX Advokatfirma, en fréttastofa hefur skýrsluna undir höndum.

PwC segja endurskoðunarvinnu í samræmi við starfsskyldur

„PricewaterhouseCoopers (PwC) gerir alvarlega athugasemd við þau vinnubrögð að rannsóknarskýrslum opinbers aðila um Glitni banka og Landsbankann, er m.a. varða starfsheiður PwC, sé komið í hendur fjölmiðla til umfjöllunar án þess að PwC hafi verið kynnt efni skýrslnanna.“

Sigurjón sagðist vera undir þrýstingi frá eigendum

Sigurjón Þ. Árnason var undir þrýstingi frá eigendum Landsbankans og kom það niður á starfsháttum og vinnubrögðum í starfi forstjóra, að því er fram kemur í skýrslu norska fyrirtækisins Lynx Advokatfirma, en fréttastofa hefur skýrsluna undir höndum.

Lánuðu tengdum aðilum 85 milljarða mánuði fyrir hrun

Glitnir lánaði 85 milljarða króna til aðila sem tengdum bankanum mánuði fyrir hrun samkvæmt franskri skýrslu sem embætti sérstaks saksóknara lét gera fyrir sig. Kastljós og DV hafa greint frá innihaldi skýrslunnar. Þá er fjallað ítarlega um málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Kolsvartar skýrslur um starfsemi bankanna

Landsbankinn stóð mun verr en ársreikningur bankans gaf til kynna í lok árs 2007, að mati norsku sérfræðinganna Helge skogseth Berg og Jørgen Rønningen.

Formaður löggiltra endurskoðenda stjórnarmaður PwC

„Ég á erfitt með að tjá mig um málið,“ segir Þórir H. Ólafsson, formaður Félags löggiltra endurskoðenda, en það vill svo til að hann er einnig stjórnarmaður í PricewaterhouseCoopers (PwC) sem hefur legið undir harðri gagnrýni í tveimur erlendum skýrslum sem voru unnar fyrir embætti sérstaks saksóknara.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×