Viðskipti innlent

Landsbankinn var tæknilega fallinn 2007 - aftur brást PwC

Valur Grettisson skrifar
Landsbankinn.
Landsbankinn.

Ef ársreikningur Landsbankans hefði verið réttur árið 2007 þá hefði komið í ljós að eigið fé bankans var undir leyfilegu lágmarki og var því tæknilega fallinn ári áður en hann fór í þrot. Þetta kemur meðal annars fram í norskri skýrslu sem var unnin fyrir embætti sérstaks saksóknara og Viðskiptablaðið greinir frá í dag.

Það voru norsku sérfræðinganna Helge skogseth Berg og Jørgen Rønningen sem unnu skýrsluna fyrir saksóknarann. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að endurskoðendur frá PricewaterhouseCoopers, ytri endskoðanda bankans, eru taldir hafa vitað af bágri stöðu bankans í árslok 2007.

Í skýrslu kemur fram að fyrirtækjum, sem tengd voru Björgólfsfeðgum, stærstu eigendum bankans, meðal annars Icelandic Group og Eimskip, hafi verið haldið á lífi með blekkingum og yfirdráttarlánum.

Þannig eru gerðar aðfinnslur við það hvernig efnahagsreikningur bankans fyrir árið 2007 og árshlutareikningar fyrir árið 2008 eru settir fram. Í skýrslunni segir orðrétt um hvernig staða bankans gagnvart Eimskip, Icelandic Group, Primus og FL Group var:

„Samkvæmt upplýsingum úr gögnum endurskoðendanna [PwC] myndum við telja að" staða fyrirtækjanna myndi kalla á niðurfærslu lána upp á 50 til 100 milljarða króna fyrir árslok 2007, aðeins ef horft er til þessara fjögurra fyrirtækja."

Þarna er vitnað til gagna frá PricewaterhouseCoopers (PwC) sem voru haldlögð af sérstökum saksóknara í húsleitum hjá fyrirtækinu í október á síðasta ári.

Viðskiptablaðið greinir frá því að fram komi í skýrslunni að Primus var í eigu Hannesar Smárasonar, sem jafnframt var forstjóri FL Group á þessum tíma en stærstu eigendur Eimskips og Icelandic Group voru Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson og fjárfestar þeim tengdir.

Í skýrslunni segir að lán til allra þessara félaga hafi verið á lista yfir lán sem mögulega þyrfti að niðurfæra. Svo virðist sem starfsmenn Landsbankans hafi látið vita af þessu og lýst yfir áhyggjum sínum um að lánin væru ekki niðurfærð nægilega mikið.

Þannig er vitnað til ummæla Einars Harðarsonar, sem þá var forstöðumaður útlánahættu á fyrirtækjasviði. Hann sagði að mögulega væru útlánin ekki færð nægileg mikið niður.

Í skýrslunni er PwC sagt hafa verið meðvitað um bága stöðu fyrrnefndra fyrirtækja og tók þátt í því að draga upp ranga mynd af stöðu Landsbankans, að mati skýrsluhöfunda. Þar helst, að útlánin hafi verið færð til bókar sem miklu verðmeiri eignir en þau raunverulega voru á þessum tíma.

Í lok árs 2007 voru lán til Eimskips rúmlega 60 milljarðar til Icelandic Group um 27 milljarðar, til Primus tæplega 25 milljarðar og FL Group um 80 milljarðar. Samtals voru lán til þessara aðila um 192 milljarða króna.

Svo segir í skýrslunni að PwC hafi vitað að veðin á bak við þessi lán væru ýmist ótrygg og í sumum tilfellum væru þau einfaldlega engin.

Þá var virðast tengdir aðilar hafa verið ranglega nefndir í efnahagsreikningi bankans. Það hafi Fjármálaeftirlitið raunar staðfest áður en reikningurinn var birtur.

Svo er fullyrt að endurskoðendur hafi auk þess vitað það en samt tekið ákvörðun í samráði við stjórnendur Landsbankans, að birta reikning sem var rangur.

Þá er helst nefnt að áhætta gagnvart Björgólfi Thor Björgólfssyni hafi verið vitlaust skilgreind, eftir að hann yfirtók lyfjafyrirtækið Actavis. Hefði það verið rétt gert hefði það haft þær afleiðingar að Landbankinn hlyti verra lánshæfi, þverrandi traust á mörkuðum og enn minni möguleika til þess treysta veikar stoðir bankans.

Og niðurstaða skýrslunnar er skýr: Ef ársreikningar Landsbankans hefði verið rétt settur fram hefði bankinn misst starfsleyfið sitt árið 2007. Í kjölfarið hefði Icesave innlánssöfnunin stöðvast og aldrei hafist í Hollandi vorið 2008. Umfang bankahrunsins hefði einnig orðið mun mildara.

Þess má geta að Slitastjórn og skilanefnd Landsbankans hyggst stefna PwC vegna málsins.


Tengdar fréttir

Yfirlýsing PwC „játning“ um að endurskoðendur hafi brugðist

PricewaterhouseCoopers, endurskoðendur Landsbankans, telja sig ekki hafa getað gerst segir um vanrækslu við endurskoðun ársreikninga því þeir hafi ekki haft gögn. Lektor í viðskiptafræði segir þetta ekki standast skoðun því endurskoðendur geti auðveldlega kallað eftir gögnum.

PwC segja endurskoðunarvinnu í samræmi við starfsskyldur

„PricewaterhouseCoopers (PwC) gerir alvarlega athugasemd við þau vinnubrögð að rannsóknarskýrslum opinbers aðila um Glitni banka og Landsbankann, er m.a. varða starfsheiður PwC, sé komið í hendur fjölmiðla til umfjöllunar án þess að PwC hafi verið kynnt efni skýrslnanna.“

Lánuðu tengdum aðilum 85 milljarða mánuði fyrir hrun

Glitnir lánaði 85 milljarða króna til aðila sem tengdum bankanum mánuði fyrir hrun samkvæmt franskri skýrslu sem embætti sérstaks saksóknara lét gera fyrir sig. Kastljós og DV hafa greint frá innihaldi skýrslunnar. Þá er fjallað ítarlega um málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Hriplek vörn hjá endurskoðendum

Endurskoðendur geta krafist allra þeirra gagna sem þeir telja sig þurfa á að halda við endurskoðun uppgjöra. Þeir eiga ekki að sætta sig við framlögð gögn viðskiptavina sinna.

Kolsvartar skýrslur um starfsemi bankanna

Landsbankinn stóð mun verr en ársreikningur bankans gaf til kynna í lok árs 2007, að mati norsku sérfræðinganna Helge skogseth Berg og Jørgen Rønningen.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×