Viðskipti innlent

PwC segja endurskoðunarvinnu í samræmi við starfsskyldur

„PricewaterhouseCoopers (PwC) gerir alvarlega athugasemd við þau vinnubrögð að rannsóknarskýrslum opinbers aðila um Glitni banka og Landsbankann, er m.a. varða starfsheiður PwC, sé komið í hendur fjölmiðla til umfjöllunar án þess að PwC hafi verið kynnt efni skýrslnanna."

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fyrirtækinu en PwC liggja undir þungum ásökunum í tveimur skýrslum sem unnar voru fyrir embætti sérstaks saksóknara og hafa lekið út í fjölmiðla í dag og í gær.

PwC segir að í ljósi þess að fyrirtækið hafi ekki getað kynnt sér ásakanirnar sé ómögulegt að svara þeim alvarlegu ásökunum sem koma þar fram.

Svo segir orðrétt:

„Af hálfu embættis sérstaks saksóknara og rannsóknaraðila á hans vegum hefur ekki verið haft samband við PwC vegna rannsóknar fyrirliggjandi gagna. PwC hefur í dag farið þess á leit við sérstakan saksóknara að fá einnig aðgang að rannsóknarskýrslunum.

Efnislegum athugasemdum verður svarað á réttum vettvangi en PwC áréttar að endurskoðunarvinna félagsins var í fullu samræmi við starfsskyldur endurskoðenda."


Tengdar fréttir

Lánuðu tengdum aðilum 85 milljarða mánuði fyrir hrun

Glitnir lánaði 85 milljarða króna til aðila sem tengdum bankanum mánuði fyrir hrun samkvæmt franskri skýrslu sem embætti sérstaks saksóknara lét gera fyrir sig. Kastljós og DV hafa greint frá innihaldi skýrslunnar. Þá er fjallað ítarlega um málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Kolsvartar skýrslur um starfsemi bankanna

Landsbankinn stóð mun verr en ársreikningur bankans gaf til kynna í lok árs 2007, að mati norsku sérfræðinganna Helge skogseth Berg og Jørgen Rønningen.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×