Viðskipti innlent

Norska skýrslan: Villandi ársreikningar og falskur hagnaður Landsbankans

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson, voru bankastjórar Landsbankans.
Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson, voru bankastjórar Landsbankans.

Ársreikningur Landsbankans fyrir árið 2007 var rangur og villandi á margvíslegan hátt, hagnaður var falsaður og eigið fé var gróflega ofmetið, að því er fram kemur í skýrslu norska fyrirtækisins LYNX Advokatfirma, en fréttastofa hefur skýrsluna undir höndum.

Skýrslan, sem dagsett er 2. nóvember á þessu ári, var unnin fyrir embætti sérstaks saksóknara. Skýrsluhöfundar telja að lánveitingar til tengdra aðila hafi ekki verið réttilega gefnar upp í skýrslum til Fjármálaeftirlitsins og þá hafi ranglega verið staðið að upplýsingagjöf um stórar áhættuskuldbindingar. Landsbankinn hafi þannig veitt gríðarlega háar fjárhæðir til tengdra aðila, fjárhæðir sem voru óeðlilega háar með hliðsjón af eigin fé bankans. Afar stór hluti þessara lána hafi aldrei verið greiddur og lánveitingarnar hafi valdið bankanum miklu tjóni.

Skuldabréfaútgáfa upp á 75 milljarða króna á árinu 2008

Skýrsluhöfundar telja að Landsbankinn hafi ekki staðið rétt að upplýsingagjöf um atriði sem voru nátengd skilyrðum fyrir starfsleyfi bankans og að ef upplýsingagjöf hefði verið rétt hefði það sennilega falið í sér afturkallað starfsleyfi. Samkvæmt skýrslu LYNX gaf Landsbankinn út skuldabréf upp á 75 milljarða króna og 800 milljónir evra á fyrri hluta ársins 2008. Skýrsluhöfundar telja að ef fjárfestar hefðu fengið réttar upplýsingar um hvernig bankinn braut gegn skilmálum starfsleyfis síns hefði það án nokkurs vafa haft áhrif á skuldabréfaútgáfu og söfnun innlána erlendis í Bretlandi og Hollandi. Þannig hafi bæði sparifjáreigendur í viðskiptum við Landsbankann og fjárfestar sem keyptu skuldabréf bankans fengið rangar og villandi upplýsingar.

Óásættanleg vinnubrögð PwC

Skýrsla LYNX er einnig mikill áfellisdómur fyrir endurskoðendur bankans, PricewaterhouseCoopers en skýrsluhöfundar telja að vinnubrögð fyrirtækisins hafi verið óásættanleg. Þannig telja höfundar að PwC hafi búið yfir upplýsingum sem hefðu átt að koma í veg fyrir að fyrirtækið áritaði ársreikning bankans fyrir árið 2007. Þannig hafi PwC átt að hafa aðgang að minnispunktum lánanefndar bankans og upplýsingar um niðurfærslu á lánum til Eimskips, Primus og Icelandic Group. Þannig hafi endurskoðendunum hjá PwC átt að vera ljóst að lán til umræddra félaga væru verðminni en uppgjör bankans sýndi. Eðlilegar varúðarafskriftir vegna ætlaðs útlánataps, þ.e niðurfærsla lána í ársreikningi, hefðu átt að eyða út stórum hluta 40 milljarða króna hagnaðar Landsbankans fyrir árið 2007, að því er fram kemur í skýrslunni. Þá hafi PwC verið fullkunnugt um að Björgólfur Thor Björgólfsson hafi átt meira en 20 prósenta óbeinan eignarhlut í Landsbankanum á árinu 2007 en samt hafi fyrirtækið sætt sig við að ekki væru gefin upp lán Landsbankans til hans og tengdra aðila.

Í skýrslunni kemur fram að Vignir Rafn Gíslason og Þórir Ólafsson, endurskoðendur hjá PwC, hafi staðfest með undirritun sinni hinn 28. janúar 2008 að endurskoðun þeirra á ársreikningi Landsbankans fyrir árið 2007 hafi verið í samræmi við alþjóðlegar reglur. Ársreikningurinn hafi þannig verið unninn í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla og gefi rétta og eðlilega mynd af stöðu bankans.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×