Viðskipti innlent

Sigurjón sagðist vera undir þrýstingi frá eigendum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Sigurjón Þ. Árnason. Hann mun hafa viðurkennt fyrir PwC að hafa verið undir þrýstingi frá eigendum Landsbankans.
Sigurjón Þ. Árnason. Hann mun hafa viðurkennt fyrir PwC að hafa verið undir þrýstingi frá eigendum Landsbankans.

Sigurjón Þ. Árnason var undir þrýstingi frá eigendum Landsbankans og kom það niður á starfsháttum og vinnubrögðum í starfi forstjóra, að því er fram kemur í skýrslu norska fyrirtækisins Lynx Advokatfirma, en fréttastofa hefur skýrsluna undir höndum.

Skýrslan, sem er mikill áfellisdómur yfir stjórnendum Landsbankans og ytri endurskoðendum hans, PricewaterhouseCoopers, fjallar m.a um vinnuskjöl sem hefðu átt að hringja viðvörunarbjöllum við endurskoðun á ársreikningum bankans. Eins og fréttastofa hefur greint frá og komið hefur fram í öðrum miðlum voru endurskoðaðir ársreikningar bankans fyrir árið 2007 rangir og villandi.

Fram kemur í skýrslunni og vitnað er til vinnuskjala PwC að Sigurjón Þ. Árnason, forstjóri, hafi sagt að öll lán yfir 500 milljónum króna, hafi verið sérstaklega metin af starfsmönnum og yfirmönnum bankans. Jafnframt hafi tryggingar að baki lánunum verið reiknaðar sérstaklega út í hvert og eitt sinn. Þau lán sem yfirmenn hafi talið að sérstök þörf hafi verið á að athuga frekar hafi verið sett á sérstakan athugunarlista eða á lista yfir varúðarafskriftir, þ.e lán sem rýrnað hefðu að verðmætum og talið var að myndu ekki innheimtast að fullu. Að lokum hafi forstjórar síðan yfirfarið þessa lista og því næst hafi þeir verið kynntir ytri endurskoðendum bankans, PwC. Samkvæmt skýrslunni kemur fram að PwC hafi gefið skýrlega til kynna að fyrirtækið hafi ekki verið í góðri stöðu til að meta viðskipti og stöðu stórra viðskiptavina Landsbankans. Þessu til viðbótar hafi Sigurjón viðurkennt fyrir PwC að hann hafi verið undir þrýstingi frá eigendum bankans, en stærstu hluthafar bankans voru félög Björgólfsfeðga. Jafnframt hafi Einar Harðarson, yfirmaður áhættustýringar Landsbankans, sagt að hann hafi viljað sjá meiri færslur á varúðarafskriftarreikning, þ.e reikning til að mæta áætluðu útlánatapi.


Tengdar fréttir

Norska skýrslan: Villandi ársreikningar og falskur hagnaður Landsbankans

Ársreikningur Landsbankans fyrir árið 2007 var rangur og villandi á margvíslegan hátt, hagnaður var falsaður og eigið fé var gróflega ofmetið, að því er fram kemur í skýrslu norska fyrirtækisins LYNX Advokatfirma, en fréttastofa hefur skýrsluna undir höndum.

Íslendingar komu að gerð norsku skýrslunnar

Skýrsla fyrirtækisins LYNX Advokatfirma um starfsemi Landsbankans er mikill áfellisdómur yfir stjórnendum Landsbankans og endurskoðendum hans, PricewaterhouseCoopers. Fram kemur í skýrslunni að Íslendingar hafi komið að gerð hennar, en hún var unnin fyrir embætti sérstaks saksóknara.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×