Enski boltinn

Benítez neitar að staðfesta að framtíð sín sé hjá Liverpool

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Rafa Benítez.
Rafa Benítez. Nordicphotos/Getty
Orðrómur þess efnis að Rafael Benítez muni hætta hjá Liverpool eftir tímabilið, eða jafnvel leikinn gegn Chelsea á eftir, eru orðnir ansi háværir. Þjálfarinn sjálfur kyndir undir þessar sögusagnir.

Hann var spurður ítrekað um framtíð sína á blaðamannafundi fyrir leikinn. Hann hefði auðveldlega getað sagt eitthvað á þá leið að hann yrði örugglega áfram hjá félaginu en sagði í staðinn ekkert nema um leikina tvo sem félagið á eftir.

Benítez skrifaði undir fimm ára samning við félagið á síðasta ári. Árangur liðsins á tímabilinu hefur aftur á móti verið afleitur og mörgum finnst liðið hafa staðnað. Skiptar skoðanir eru meðal stuðningsmanna félagsins um hvort þeir vilji að Rafa fari eða ekki.

Benítez hefur áður tjáð sig um að hann vilji fá 4-5 leikmenn til félagsins í sumar. Það bendir til þess að hann verði áfram en á meðan eignarhald félagsins er í óvissu er líklegt að stjóramálin verði það líka.

Vitað er að Jose Mourinho hefur áhuga á að taka við Liverpool en hann er þó líklegri til að taka við Real Madrid. Roy Hodgson er einnig sagður líklegur til að taka við af Rafa.

Í morgun var svo Dubai International Capital, fjárfestingafélag Sheikh Mohammed bin Rashid Al Maktoum, sagt vera að kaupa Liverpool fyrir 500 milljónir punda. Það var í Sunday Express slúðurritinu en þar segir einnig að Benítez hafi þegar samþykkt munnlega að skrifa undir hjá Juventus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×