Íslenski boltinn

Þorvaldur: Klaufar að klára ekki leikinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þorvaldur Örlygsson.
Þorvaldur Örlygsson. Mynd/Valli

„Við vorum klaufar að klára ekki leikinn. Við höfðum öll völd og vorum þannig séð betra liðið," sagði Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram, eftir 2-1 tap fyrir Haukum í Pepsi-deild karla í kvöld.

Fram komst yfir snemma í síðari hálfleik en Haukar jöfnuðu metin úr vítaspyrnu þegar um 20 mínútur voru til leiksloka. Hafnfirðingar tryggðu sér svo sigurinn með marki í uppbótartíma leiksins.

„Við hleyptum þeim inn í leikinn með vítaspyrnunni og það vorum við sem vorum klaufarnir."

Fram spilaði síðast á mánudagskvöldið og sagði Þorvaldur að það hafi verið greinilegt í fyrri hálfleik.

„Fyrri hálfleikur var þungur og mér fannst leikurinn lengi að komast í gang. Það gekk betur hjá okkur í seinni hálfleik og þá komust við betur inn í leikinn. Mér fannst við samt ekki nýta þau færi sem við vorum að skapa okkur."

„Það er stutt í næsta leik og fara nú fjórir leikir fram á stuttu tímabili. Niðurröðun leikja er óneitanlega afarsérstök."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×