Innlent

Mun skoða handtökurnar í dómsal

skoðar málið Ragna Árnadóttir segir að þeir sem telja að lögreglan hafi brotið á sér eiga að kæra það.Fréttablaðið/gva
skoðar málið Ragna Árnadóttir segir að þeir sem telja að lögreglan hafi brotið á sér eiga að kæra það.Fréttablaðið/gva
Uppákoman í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir helgi, þar sem tveir voru handteknir í dómsal eftir að hafa neitað að yfirgefa hann að kröfu dómara, verður skoðuð í dómsmálaráðuneytinu. Þetta segir Ragna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindamálaráðherra.

Ragnar Aðalsteinsson, verjandi eins þeirra nímenninga sem verið var að rétta yfir fyrir árás á Alþingi, hefur sagt að mannréttindi hafi verið brotin á þeim sem lögregla bar út úr dómsalnum enda skuli réttarhöld vera opin öllum. Ragnar sendi í kjölfarið bréf á dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur og ráðherra þar sem hann krefst þess að svona nokkuð komi aldrei fyrir aftur.

Ragna áréttar að dómari stýri þinghaldi og hafi til þess ríkar heimildir. „En ráðuneytið mun skoða málið eins og lagaheimildir leyfa,“ segir hún. „Til að afla gagna í málinu mun dómsmálaráðuneytið senda erindi lögmannsins til embættis Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til umsagnar. Auk þess munum við óska eftir því að vera upplýst um viðbrögð dómstjóra héraðsdóms við erindinu.“

Ragna bendir að lokum á það að þeir sem telji að lögreglan hafi brotið gegn sér eigi að beina kærum sínum til ríkissaksóknara. - sh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×