Innlent

Ráðherrar geti kallað til varamenn

Í nýju frumvarpi er gert ráð fyrir að þingmaður sem verður ráðherra geti setið á þingi sem ráðherra en ekki þingmaður.
Í nýju frumvarpi er gert ráð fyrir að þingmaður sem verður ráðherra geti setið á þingi sem ráðherra en ekki þingmaður.

Ráðherrar geta kallað til varamenn til setu á Alþingi verði frumvarp nítján þingmanna úr öllum flokkum að lögum. Í því er gert ráð fyrir að þingmaður geti, meðan hann gegnir ráðherraembætti, ákveðið að sitja á Alþingi samkvæmt embættisstöðu sinni sem ráðherra en ekki þingmaður. Missir hann því atkvæðisrétt en getur tekið þátt í umræðum.

Flutningsmenn telja þetta ráðslag til þess fallið að styrkja ákvæði stjórnarskrárinnar um þrískiptingu valdsins enda séu skilin á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins óljós. Í greinargerð er bent á að fyrir þinginu liggi frumvarp um breytingu á stjórnarskrá þess efnis að skýrt verði kveðið á um að þingmaður sem skipaður verði ráðherra skuli víkja úr þingsæti á meðan hann gegnir ráðherraembætti og varamaður hans taka sæti hans á meðan. „Verði það frumvarp samþykkt getur breytingin eðli máls samkvæmt ekki tekið gildi fyrr en á nýju kjörtímabili. Það frumvarp sem nú er lagt fram gerir þeim sem svo kjósa kleift að hafa þennan háttinn á strax á þessu kjörtímabili," segir í greinargerðinni.

Í frumvarpinu er miðað við að ráðherra sem ákveður að kalla til varamann haldi kjörum sínum. Í því felst að útgjöld Alþingis aukast sem nemur þingfararkaupi og öðrum greiðslum til varaþingmannsins. - bþs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×