Innlent

Leit að öðru en álveri bar ekki árangur

Reinhard Reynisson er formaður Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.
Reinhard Reynisson er formaður Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.

Verkefnisstjórn um nýtingu orkunnar í Þingeyjarsýslum hefur skilað iðnaðarráðherra sömu niðurstöðu og hún gerði í vor; að tvö verkefni séu áhugaverð og raunhæf; álver á vegum Alcoa og álver á vegum kínverska fyrirtækisins Bosai. Ósk ríkisstjórnarinnar í maí, um að leitað yrði betur að einhverju öðru, breytti engu.

Eftir að ríkisstjórnin hafnaði því í fyrrahaust að endurnýja viljayfirlýsingu við Alcoa um álver á Bakka setti iðnaðarráðherra sérstaka verkefnisstjórn heimamanna og stjórnvalda á laggirnar til að skoða aðra möguleika.

Hún flokkaði þá kosti sem væru í boði í A, B og C flokk, og komust tvö verkefni í A-flokk, sem áhugaverð og raunhæf, annarsvegar álver Alcoa og hins vegar álver á vegum Bosai, sem er kínverskt einkafyrirtæki. Fjögur verkefni voru sett í B-flokk sem áhugaverð en þyrftu ítarlegri skoðun. Þau voru í áliðnaði, gagnaver, málmblendi og efna- og eldsneytisframleiðsla. Loks voru sex verkefni sett í C-flokk sem þyrftu að þroskast betur.

Ríkisstjórnin var hins vegar ekki tilbúin í vor út frá þessari niðurstöðu að velja annaðhvort álfyrirtækið úr A-flokknum heldur gaf fyrirmæli um að leitað yrðu betur að einhverju öðru og átti niðurstaða að liggja fyrir þann 1. október.

Verkefnisstjórnin hefur nú lokið leit sinni og skilaði iðnaðarráðherra niðurstöðu fyrir helgi. Hún er sú að staðan sé óbreytt; að það séu aðeins tvö verkefni sem fari í A-flokk, sem áhugaverð og raunhæf; annarsvegar álver Alcoa og hins vegar kínverska álverið.

Reinhard Reynisson, fomaður Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, sem sæti á í verkefnisstjórninni, segir að sum hinna verkefnanna séu háð því að álver eða sambærileg stóriðja rísi, sem geti staðið undir kostnaði við uppbygginga nauðsynlegra grunnstoða, eins og háspennulína.

Sveitarstjóri Norðurþings, Bergur Elías Ágústsson, sagði í fréttum Stöðvar 2 í síðustu viku að boltinn væri nú hjá stjórnvöldum og vildi að gengið yrði til samninga við stóran orkukaupenda innan fárra vikna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×