Innlent

Ætla að efla árangursmælingar

Björn Zoëga, forstjóri LSH, segir að í fyrra hafi tekist að hagræða um 2,7 milljarða króna hjá spítalanum án fjöldauppsagna. Fréttablaðið/Stefán
Björn Zoëga, forstjóri LSH, segir að í fyrra hafi tekist að hagræða um 2,7 milljarða króna hjá spítalanum án fjöldauppsagna. Fréttablaðið/Stefán
 Yfirstjórn Landspítalans (LSH) bárust 3.400 tillögur frá starfsfólki um leiðir til að auka sparnað og 800 tillögur um stefnumótun. Björn Zoëga, forstjóri LSH, kynnti nýja framtíðarsýn spítalans og starfsáætlun fyrir þetta ár og næsta á ársfundi spítalans í gær.

Framtíðarsýn LSH gerir meðal annars ráð fyrir að árangursmælingar verði efldar þannig að hægt verði að bregðast við sveiflum í rekstrinum og tryggja árangur. Á þessu ári leggur spítalinn áherslu á að rekstur verði innan heimilda, á öryggi sjúklinga, skilvirka verkferla og að gera LSH að góðum vinnustað. Stefnt er að því að daglegur meðalfjöldi inniliggjandi sjúklinga dragist saman um fimm prósent á þessu ári og einnig á því næsta. Biðlistar eiga líka að minnka um 10 prósent í ár og aftur næsta ár.

Í erindi Björns er bent á að fall krónunnar hafi verið spítalanum dýrt. „Okkar svar hefur verið að breyta spítalanum mjög róttækt og draga saman þar sem hægt er. Engin önnur lausn er til í glímu við vandann enda er fjárhagsstaða ríkisins slík að ekki er hæft að búast við auknum opinberum fjárframlögum." - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×