Innlent

Kuldinn í Evrópu hækkar bensínverð

Lítrinn af 95 oktana bensíni með þjónustu hefur aldrei verið dýrari hérlendis. Fréttablaðið/gva
Lítrinn af 95 oktana bensíni með þjónustu hefur aldrei verið dýrari hérlendis. Fréttablaðið/gva
Lítraverð á 95 oktana bensíni fór yfir 200 krónur með fullri þjónustu á stærri bensínstöðvum í fyrrakvöld þegar olíufélög hækkuðu verðið almennt um þrjár krónur. Hefur verðið aldrei áður verið eins hátt hérlendis.

Magnús Ásgeirsson, yfirmaður eldsneytisinnkaupa hjá N1, segir að rekja megi verðhækkunina rakleiðis til kuldakastsins í Evrópu upp á síðkastið.

„Allar spár síðasta hluta síðasta árs voru á þá leið að olíuverð yrði frekar flatt og stöðugt eitthvað fram eftir árinu. Það sem hins vegar setti strik í reikninginn, og leiddi til þessarar hækkunar, voru kuldarnir úti í Evrópu,“ segir Magnús.

„Þá fer hráefnið bara nánast allt í að framleiða olíu sem er notuð til húshitunar vegna kuldans og verðið hækkar vegna þess.“

Og Magnús á frekar von á því að verðið lækki aftur þegar veðrinu slotar. „Það myndi þá gerast mjög hratt að því gefnu að krónan sé skikkanleg eins og hún hefur verið undanfarið.“

Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem lítraverð á eldsneyti fer yfir 200 krónur á Íslandi. Í októberbyrjun haustið 2008 fór lítraverð á dísilolíu í 204,6 krónur í tæpa viku vegna óróleikans á fjármálamörkuðum. Það lækkaði síðan aftur í kjölfar setningar neyðarlaganna 6. október. - sh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×