Íslenski boltinn

Heimir Hallgríms: Breiðablik ræður því hverjir verða Íslandsmeistarar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV.
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV.
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV, var kátur með sína menn eftir 2-0 sigur á Selfossi í dag. ÍBV-liðið vann leikinn sanngjarnt en þurfti engu að síður að hafa mikið fyrir sigrinum.

„Þetta var flottur dagur fyrir okkur Eyjamenn. Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur því við vorum að ná markmiðum okkar sem var að komast í Evrópukeppni. Það er mikill léttir fyrir mig og fyrir klúbbinn að vera búnir að ná því tölfræðilega þótt að það hafi verið ansi líklegt fyrir leikinn," sagði Heimir Hallgrímsson eftir leikinn.

„Við stefnum síðan að vinna tvo síðustu leikina og sjá hverju það skilar okkur. Blikar vinna frábæran sigur út í KR og ég óska þeim til hamingju með það. Þeir eru með þetta allt í hendi sér og þó að allir voni að þeir misstígi sig þá er það þeirra að ákveða það hvort þeiri geri það," segir Heimir sem tók undir að lið hans hafi spilað skynsamlega í kvöld.

„Við lokuðum vel á þá. Þeir eru með gríðarlega skemmtilega framherja en fengu engin dauðafæri sem ég man eftir. Þetta var mjög góður leikur varnarlega hjá okkur og við hefðum átt að skora fleiri mörk. Við vorum svolitlit klaufar að klára ekki leikinn og þetta varð því spennandi leikur allan tímann," sagði Heimir en ÍBV er nú einu stigi á eftir toppliði Breiðabliks þegar tvær umferðir eru eftir.

„Við getum bara hugsað um okkur og Breiðablik ræður því síðan hverjir verða Íslandsmeistarar. Þeir virðast allavegna vera í flottu formi í dag og við getum því lítið annað gert en að hugsa um það að vinna þessa tvo síðustu leiki okkar," sagði Heimir að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×