Innlent

Sjálfstæðismenn funda vegna afsagnar Þorgerðar

Höskuldur Kári Schram skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði af sér um helgina.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði af sér um helgina.

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins kemur saman til fundar í dag til að ræða þá stöðu sem upp er kominn í flokknum eftir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði af sér sem varaformaður um helgina. Þá verður einnig ræddur sá möguleiki að flýta Landsfundi flokksins.

Ekki liggur fyrir í lögum flokksins hvernig staðið skuli að kjöri nýs varaformanns láti hann af embætti á miðju kjörtímabili. Flokksráð hefur umboð til að velja nýja formann en ekki er tilgreint sérstaklega hvort ráðið geti einnig valið nýjan varaformann.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði af sér varaformennsku í flokknum um helgina en hún ætlar einnig að víkja tímabundið af þingi. Varaformenn eru kjörnir á landsfundum flokksins en sá næst er ekki fyrirhugaður fyrr en í september á næsta ári.

Fram kom í máli Bjarna Benediktssonar, formann Sjálfstæðisflokksins, á flokkráðsfundinum um helgina að hann hyggst leggja það til á miðstjórnarfundinum í dag að landsfundinum verði flýtt.

Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri flokksins, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að það taki nokkra mánuði að undirbúa landsfund.

Því þykir líklegt að miðstjórn láti flokksráði það eftir að velja nýjan varaformann - sem mun sitja fram að landsfundi. Kristján Þór Júlíusson, hefur verið nefndur í þessu samhengi en bauð sig fram til formanns á móti Bjarna Benediktssyni á síðasta landsfundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×