Innlent

Skoðað verði hvort viðskipti voru óeðlileg

Vilhjálmur Egilsson og Gylfi Arnbjörnsson.
Vilhjálmur Egilsson og Gylfi Arnbjörnsson. Mynd/Pjetur

Forseti Alþýðusambandsins (ASÍ) og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) hafa rætt sín á milli um að komið verði á fót sérstakri rannsóknarnefnd um samskipti lífeyrissjóða og banka.

Ásakanir um óeðlileg viðskipti sjóðanna við bankana hafa komið fram að undanförnu og um leið krafa um að stjórnendur sjóðanna víki eða verði vikið.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir að í ljósi villandi umræðu síðustu daga sé mikilvægt að slík rannsókn verði gerð. Telur hann heppilegt að í þriggja manna nefnd sitji einn til tveir útlendingar sem hefðu engin hagsmunatengsl við landið.

Gylfi sagði í grein á Pressunni um málið í gær að með svona úttekt væri hægt að leggja grunn að þeim nauðsynlega trúnaði sem þyrfti að ríkja milli stjórna lífeyrissjóðanna og launafólks.

Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, sagði ekkert óeðlilegt við að kannað yrði með skýrum hætti hvort fjárfestingar lífeyrissjóðanna hefðu verið óeðlilegar og hvort um svonefnda hjarðhegðun hefði verið að ræða. Hann leggur áherslu á að lífeyrissjóðirnir hafi verið þolendur í bankahruninu og séu nánast einu fjármálastofnanirnar sem stóðu af sér hrunið. Í góðu lagi sé að skoða starfshætti þeirra. - bþs










Fleiri fréttir

Sjá meira


×