Fótbolti

Banni Tógó aflétt - Sepp Blatter reddaði þessu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sepp Blatter.
Sepp Blatter. Mynd/AFP
Sepp Blatter, forseti FIFA, hefur fengið það í gegn að landslið Tógó fái að taka þátt í næstu Afríkukeppni landsliða í fótbolta. Afríska knattspyrnusambandið hafði áður dæmt landslið Tógó í bann í næstu tveimur Afríkukeppnum eftir að landsliðið fór heim frá Afríkukeppninni í Angóla í framhaldi þess að rúta liðsins varð fyrir skotárás.

„Ég er mjög ánægður með að við höfum getað fundið laus sem báðir aðilar sætta sig við," segir í yfirlýsingu frá Sepp Blatter. „Þetta er mikilvægur áfangi fyrir allan knattspyrnuheiminn og sérstaklega gott fyrir afríska knattspyrnu," sagði ennfremur í yfirlýsingunni frá Blatter sem gekk í hlutverk sáttarsemjara í deilunni.

Rúta Tógó varð fyrir hríðskotaárás tveimur dögum áður en Afríkukeppnin átti að hefjast og forustumenn þjóðarinnar ákváðu síðan að draga liðið úr keppni. Það hafði miklar afleiðinga fyrir keppnina enda var riðill Tógó-liðsins í kjölfarið aðeins skipaður þremur liðum, Gana, Fílabeinsströndinni og Búrkína Fasó.

Emmanuel Adebayor hefur tilkynnt það að hann væri hættur að leika með landsliðinu í kjölfar árásarinnar og eftirmála hennar. Það er ekki ljóst hvort þessi þróun mála muni breyta einhverju þar um.

Það er búið að draga í undankeppni næstu Afríkukeppni sem á að fara fram 2012 og Tógó var ekki með í þeim drætti. Nú þarf því að draga aftur en undankeppnin hefst í september og úrslitakeppnin fer síðan fram í Gabon og Miðbaugs-Gíneu í ársbyrjun 2012.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×