Enski boltinn

Harry Redknapp valinn stjóri ársins í ensku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Redknapp, stjóri Tottenham.
Harry Redknapp, stjóri Tottenham. Mynd/AP
Tottenham tilkynnti það á heimasíðu sinni í kvöld að Harry Redknapp, stjóri liðsins, hafi verið valinn knattspyrnustjóri ársins í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa farið með félagið inn í Meistaradeildina.

Hinn 63 ára gamli Redknapp hafði betur í baráttunni við þá Carlo Ancelotti og Roy Hodgson. Ancelotti er einum sigurleik frá því að vinna enska meistaratitilinn á sínu fyrsta ári með Chelsea og Hodgson hefur farið með Fulham-liðið í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

Redknapp tók við Tottenham eftir aðeins átta leiki í fyrravetur þegar liðið var í neðsta sæti deildarinnar með aðeins tvö stig úr fyrstu átta leikjum sínum. Liðið bjargaði sér örugglega frá falli í fyrra og gerði síðan miklu betur í vetur.

Undir stjórn Redknapp tókst Tottenham-liðinu að brjótast inn í hóp þeirra fjögurra efstu en Meistaradeildarsætin hafa verið í áskrift hjá Manchester United, Chelsea, Arsenal og Liverpool síðustu árin. Því breyttu Redknapp og lærisveinar hans á þessu tímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×