Innlent

Icesave tefur ekki stóriðjuna

Höskuldur Þórhallsson alþingismaður.
Höskuldur Þórhallsson alþingismaður.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir ekki hægt að slengja því fram að Icesave tefji fjármögnun í stóriðju, án þess að tiltaka þau verkefni sem svo er ástatt um. Sjálfur telur hann það ekki eiga við um nein verkefni.

„Icesave hefur ekkert að gera með þær framkvæmdir sem ríkið getur farið í núna strax í orkugeiranum." Tilefni orða Höskulds eru orð Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra í Fréttablaðinu í gær. Þar sagði hún Icesave hafa verið til trafala, meðal annars í fjárfestingum í orkugeiranum. Ráðherra vísaði í orð forstjóra Landsvirkjunar þar um.

Höskuldur er ósammála. „Nokkrar framkvæmdir eru í gangi í augnablikinu. Orkuveitan er með Hellisheiði 5 til 6 í vinnslu og það gengur ágætlega. Þeirri orku hefur verið ráðstafað til Norðuráls. Síðan er Búðarháls í ágætum farvegi."

Hvað önnur verkefni varðar segir Höskuldur standa á stjórnvöldum. „Síðan er annað stopp vegna ákvarðana stjórnvalda, vegna þess að framkvæmdaleyfi vantar, eða þau eru í umhverfismati einhvers konar, eða þá að þeir sem vilja koma að þeim eru ekki þóknanlegir stjórnvöldum," segir Höskuldur og vísar til Alcoa sem vill kaupa orku af Þeistareykjum.

- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×