Enski boltinn

Man. Utd mætir Celtic í Kanada

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Manchester United mun fara í æfingaferðalag til Ameríku í sumar þar sem liðið mun spila í Philadelphia, Kansas, Houston sem og í Toronto í Kanada. Loks spilar liðið í Mexíkó.

Liðið fer fyrst til Chicago þar sem hinn nýi styrktaraðili liðsins, Aon, er með höfuðstöðvar. Þar borða menn snittur, drekka smá kampavín og brosa i myndavélar áður en þeir fara til Toronto í fyrsta leikinn sem er gegn skoska liðinu Celtic.

Fimm dögum síðar er leikið gegn Philadelphia Union og loks mætir United liði Kansas City Wizards þann 25. júlí.

United spilar svo sérstakan leik gegn stjörnuliði MLS-deildarinnar þann 28. júlí. Ballið er ekki búið þar því United heldur eftir það til Mexíkó til að spila gegn Chivas þann 30. júlí. Félagið er að vígja nýja völl og sá leikur er hluti af samningi United við félagið er það keypti Javier Hernandez frá Chivas.

Þeir leikmenn félagsins sem fara á HM verða væntanlega ekki með í þessari Bandaríkjaferð. Á meðal leikmanna United í ferðinni eru þó þeir Ryan Giggs, Paul Scholes, Edwin van der Sar, Dimitar Berbatov, Michael Owen, John O'Shea, Antonio Valencia, Federico Macheda og bræðurnir Rafael da Silva og Fabio da Silva.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×