Íslenski boltinn

Heimir: Vona að við séum gerðir úr öðru en sultu

Valur Smári Heimisson. skrifar
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV.
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV. Mynd/Vilhelm
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV var að vonum ekki sáttur eftir 2-4 tap á móti KR í Eyjum í kvöld og talaði um að það hafi verið erfitt að rífa sig upp eftir að hafa fengið mark á sig á fyrstu mínútunni.

„Við vorum komnir 0-2 undir eftir bara 4 mínútur og það tók okkur góðan hálftíma að komast í gang eftir það," sagði Heimir. Heimir talaði sína menn til í hálfleik og menn mættu töluvert grimmari og með allt annað hugafar inn í síðari hálfleikinn.

„Í seinni hálfleik var bara allt annað hugafar hjá mínu liði og í stöðunni 1-2 fáum við víti. Við klúðrum því en strax í framhaldinu skorum við og mér fannst við alveg vera með leikinn í okkar hendi á þeirri stundu. En svo fáum við dæmda á okkur kjánalegt víti og það slær menn aftur út. Eftir það gat þetta í raun dottið báðu megin en það datt þeirra meginn í dag," sagði Heimir.

Lars Ivar Moldeskred átti stórleik í marki KR. Hann varði víti og nokkrum sinnum varði hann bæði skalla og skot af mjög stuttum færi. Hann hélt því KR-ingum inni í leiknum oft á tíðum.

„Það duttu inn dauðafæri báðu megin en þetta réðst mikið á markvörslunni hjá Lars sem ver þrisvar sinnum alveg glæsilega í þessum leik. Hann var klárlega maður leiksins," sagði Heimir.

Nú þurfa Eyjamenn að rífa sig upp fyrir næsta leik sem er á móti Selfoss á útivelli. „Það verður bara að koma í ljós hvort við náum ekki að rífa okkur upp fyrir næsta leik. Það er eftir áföll sem það kemur í ljós úr hverju menn eru gerðir og ég vona það að við erum gerðir úr eitthverju öðru en sultu," sagði Heimir að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×