Íslenski boltinn

Alfreð Finnbogason: Pólland var aldrei draumastaðurinn

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Fréttablaðið/Anton
Lengi vel leit út fyrir að Alfreð Finnbogason væri á leið til Póllands. Félag þar í landi, Lechia Gdansk, var í viðræðum við Blika um að kaupa Alfreð. Félögin sendu tilboð sín á milli en á endanum var pólska félagið ekki tilbúið til að borga setta upphæð fyrir framherjann. „Ég er ekkert svekktur. Ég viðurkenni alveg að þetta var aldrei neinn draumastaður til að hefja atvinnumannaferilinn á,“ sagði Alfreð léttur. En hver er draumastaðurinn? „Manchester United,“ sagði Alfreð strax, sposkur. Það gæti vel gerst enda United með öllu óútreiknanlegt í félagaskiptum, það keypti til að mynda nýlega framherja úr portúgölsku þriðju deildinni sem var áður heimilislaus, Bebe. „Ef maður lítur á þetta þannig er það alltaf hægt,“ sagði Alfreð. „Maður verður jú að eiga drauma,“ sagði Alfreð réttilega. Pólska félagið dró lappirnar að því er virðist og eðlilega hefði Alfreð ekki samið við félagið án þess að fara út og kanna aðstæður. „Ég fékk eiginlega aldrei tækifæri til að skoða þetta frá Póllandi almennilega, félögin náðu ekki saman og það er lokapunkturinn. Maður verður samt ekkert nær afstöðu með því að lesa netið,“ sagði Alfreð. Framherjinn segir að það hafi alltaf verið áætlunin að klára tímabilið með Blikum og hann er ánægður að ná því. „Nú er bara að klára þetta með stæl. Þetta er í fyrsta skipti sem við eigum svona góðan möguleika á titlinum,“ segir Alfreð. Hann stefnir nú ótrauður á að komast út í janúarglugganum á næsta ári. „Ég er ekkert að missa svefn yfir þessum hlutum. Góðir hlutir gerast hægt,“ segir Alfreð. Næsta verkefni hans er þó að fara með U21 árs landsliði Íslands til Tékklands í næstu viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×