Innlent

Umferð þyngist í átt að gosstöðvunum

MYND/Jóhann Bj. Kjartansson.

Þung umferð bíla er nú á Suðurlandsvegi í nágrenni gosstöðvanna og hefur hún aukist mjög síðustu klukkustundir, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Hvolsvelli.

Umferðin beinist jafnt inn í Fljótshlíð, Þórsmörk, að Skógum og að Sólheimum. Lögregla og björgunarsveitir hafa nokkrar áhyggjur af veðurspánni en með kvöldinu er gert ráð fyrir að fari að hvessa af austri og þykkna upp á Fimmvörðuhálsi.

Í nótt bætir í vind og snemma í fyrramálið er reiknað með að vindur verði kominn í 15-18 m/s með snjókomu. Veður á svo að versna enn þegar líður á morgundaginn.

Almannavarnir minna á að hafa ber í huga að veður getur breyst mjög snögglega á fjöllum og gjarnan orðið mun verra en spáð er. Á undanförnum dögum hefur það sýnt sig að ekki þarf mikinn vind til að færð á Mýrdalsjökli spillist fljótt.

Nú er talið að færð þar henti ekki bílum á minni dekkjum en 38 tommum.

Meðfylgjandi mynd tók Jóhann Bj. Kjartansson en hann var staddur við gosstöðvarnar í ljósaskiptunum í gærkvöldi um klukkan tíu. Myndin er tekin rétt í þann mund sem gosið færðist í aukana og stuttu síðar byrjaði þessi hraunfoss að renna niður í Hvannárgil.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×