Innlent

Eldgosinu virðist lokið

Eldgosinu í Eyjafjallajökli gæti verið lokið. Gosið virðist hafa hætt um miðjan dag í gær. Veðurstofan varar þó við að það geti tekið sig upp aftur og í morgun varð jarðskjálfti upp á 3,2 stig undir Eyjafjallajökli.

Ekki hefur sést til elstöðvarinnar í morgun vegna slæms skyggnis og, að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli, er ekki vitað til þess að þar sé neinn á ferð til að staðfesta að þar gjósi ekki lengur. Gosórói á mælum Veðurstofunnar féll hins vegar niður um miðjan dag í gær og er það túlkað þannig að þá hafi hætt að gjósa, að sögn Bergþóru Þorbjarnardóttur, jarðeðlisfræðings á Veðurstofunni. Hún varar þó við að gosið geti tekið sig upp aftur og bendir á að klukkan hálfátta í morgun varð jarðskjálfti, 3,2 að stærð, undir norðaustanverðum Eyjafjallajökli.

Breytingar á GPS mælum, sem fram komu á föstudag og laugardag, benda til minnkandi spennu undir Eyjafjallajökli, sem styður það að komið sé að lokum eldgossins. Það hófst fyrir laust fyrir miðnætti laugardagskvöldið 20. mars, og hefur þannig staðið í þrjár vikur.

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×