Innlent

Varnargarðurinn verði utar

Siglingastofnun áætlar nýjan sjóvarnargarð þrjátíu metra frá íþróttavellinum í Vík. Heimamenn vilja garðinn utar til að hefta betur sandrok.Fréttablaðið/GVA
Siglingastofnun áætlar nýjan sjóvarnargarð þrjátíu metra frá íþróttavellinum í Vík. Heimamenn vilja garðinn utar til að hefta betur sandrok.Fréttablaðið/GVA
Sveitarstjórn Mýrdalshrepps vill að lega á fyrirhuguðum sjóvarnargarði við Vík verði endurskoðuð.

Að sögn sveitarstjórnarinnar kemur fram í nýrri greinargerð verkfræðistofunnar Mannvits fyrir Mýrdalshrepp að Siglingastofnun og Vegagerðin hafi ekki metið nýja veglínu og sjóvörn út frá þjóðhagslegum hagsmunum. Hvor stofnunin um sig hafi aðeins horft til sinna þátta. Færa þurfi sjóvarnargarðinn utar en Siglingastofnun geri ráð fyrir. „Það er í samræmi við sjónarmið Landgræðslunnar sem hefur haldið fram þeim sjónarmiðum að sjóvarnargarður þurfi að vera sem lengst frá byggðinni þannig að unnt verði að hemja sandrok sem óhjákvæmilega má eiga von á úr fjörunni við viss veðurskilyrði,“ segir sveitarstjórnin.

Mýrdælingar hafa lengi bent á mikið landbrot sem ógni byggðinni í Vík. Eins og fram hefur komið hefur Alþingi nú samþykkkt 100 milljóna króna framlag í gerð 730 metra varnargarðs. Ekki er gert ráð fyrir garðinum í aðalskipulagi Mýrdalshrepps en sveitarstjórnin vonast til að breytingar á skipulaginu gangi í gegn nú í febrúar. Heimamenn gera athugasemdir við fleira en legu garðsins. „Ekki er að sjá að gert sé ráð fyrir útsýnispöllum, gönguleiðum, bakkavörnum og frárennslisútrás við Víkurá,“ segir sveitarstjórnin. - gar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×