Enski boltinn

Solskjaer: Manchester United getur ennþá náð Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjaer.
Ole Gunnar Solskjaer. Mynd/AFP
Ole Gunnar Solskjaer, fyrrum leikmaður Manchester United, er sannfærður um að Manchester United liðið eigi enn möguleika á að vinna enska meistaratitilinn á þessu tímabili þrátt fyrir sannfærandi 7-0 sigur Chelsea á Stoke um helgina. United er einu stigi á eftir toppliði Chelsea og með miklu lakari markatölu þegar tveir leikir eru eftir.

„Við eigum enn möguleika. Liðið fór í gegnum skelfilega viku þegar það datt út fyrir Bayern Munchen í Meistraradeildinni og náði síðan aðeins markalausu jafntefli við Blackburn. Þeir mega bara ekki vorkenna sjálfum sér heldur verða menn að koma til baka og svara þessu á vellinum. Liðið er þar sem það vill vera á þessum tíma ársins - enn með möguleika á að vinna titilinn," sagði Solskjaer.

Solskjaer segir að það sé best fyrir leikmenn að vera inn á vellinum á svona tímum þegar spennan er mikil utan vallar og á milli leikja. Norðmaðurinn segir að það sé jafnvel erfiðara að vera þjálfari eða stuðningsmaður því það eina sem þeir geta gert er að horfa á og vona það besta.

„Það er gott að vera leikmaður á þessum tíma ársins. Þeir geta hlakkað til að spila leikina og þeir vita að þeir geta gert eitthvað í málunum inn á vellinum. Þeir ráða sínum eigin örlögum," sagði Ole Gunnar Solskjaer sem nú þjálfar varalið Manchester United.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×