Innlent

Forsetinn talar gegn skilningi stjórnvalda

Forsetinn sagði þráspurður, á blaðamannafundi í síðustu viku, að eldri lög giltu ef þjóðin felldi breytingarlög um Icesave. Fjármálaráðherra segir málin í fullkominni óvissu og fjarri öllu lagi sé að þá liggi fyrir samkomulag. fréttablaðið/vilhelm
Forsetinn sagði þráspurður, á blaðamannafundi í síðustu viku, að eldri lög giltu ef þjóðin felldi breytingarlög um Icesave. Fjármálaráðherra segir málin í fullkominni óvissu og fjarri öllu lagi sé að þá liggi fyrir samkomulag. fréttablaðið/vilhelm
Fullkomið ósamræmi er í orðum Ólafs Ragnars Grímssonar forseta og ráðherra í ríkisstjórn Íslands um hvað gerist verði lögum um breytingu á Icesave hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Forsetinn sagði við blaðamann Fréttablaðsins í síðustu viku að eldri lög yrðu þá í gildi. „Mér finnst skrýtið núna að þau [eldri lögin] séu ómerk og hafi í raun ekkert innihald.“ Þetta áréttaði hann við fréttaveituna Bloomberg í gær.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir þau lög hins vegar óframkvæmanleg. Það áréttaði Einar Karl Haraldsson, upplýsingafulltrúi í utanríkisráðuneytinu, einnig við Bloomberg í gær.

Í eldri lögunum er kveðið á um að ríkisábyrgð taki ekki gildi nema Bretar og Hollendingar fallist á fyrirvara sem Alþingi setti. Þeim hafa þeir þegar hafnað.

Hann telur einnig að óvissa ríki um framkvæmd laganna, þótt viðsemjendurnir myndu samþykkja fyrirvarana. Ríkið ábyrgist ekki nema hluta endurgreiðslunnar og því séu áhöld um hvort innlánstryggingasjóður geti tekið alla ábyrgðina á sig. „Þá geta stjórnarmenn jafnvel orðið persónulega ábyrgir og þeir myndu aldrei fást til þess.“ Steingrímur segir þó að kæmi sú staða upp yrði glímt við hana.

Hann er algjörlega ósammála orðum forsetans um að eldri lögin haldist óbreytt, sé þeim nýrri hafnað. „En það er auðvitað fjarri öllu lagi að þá liggi fyrir samkomulag í málinu og það sé leyst með því, það er eins fjarri öllu lagi og nokkuð getur verið og hið gagnstæða liggur fyrir. Þannig að í raun og veru er ómögulegt að segja hvar við erum þá stödd og hversu langt aftur á bak við erum komin og deilan yrði í öllu falli óleyst.“kolbeinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×