Fótbolti

Rúnar: Bara æsifréttamennska

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson.

Rúnar Kristinsson gefur ekki mikið fyrir staðhæfingar norskra fjölmiðla um að hann hafi njósnað um norska liðið á æfingu þess á Laugardalsvelli í gær.

Sjónvarpsstöðin TV2 birti í gær frétt um málið þar sem rætt við leikmenn, þjálfara og forráðamenn norska landsliðsins. Þeir segja þetta slæmt og að heiðursmannasamkomulag ríki um að gera þetta ekki.

„Ég væri ansi lélegur njósnari ef ég sæti fyrir allra augum á Laugardalsvelli með blað og penna alla æfinguna," sagði Rúnar. „Æfingin var opin fjölmiðlum fyrstu 20 mínúturnar og þegar þeir fóru þá fór ég sjálfur."

„Enda var TV2 með myndir af mér sem þeir hefðu ekki getað náð öðruvísi en að vera sjálfir á vellinum. Þetta var bara æsifréttamennska."

Í viðtali við Rúnar viðurkennir hann að hafa séð liðið. „Ég þekki sjónvarpsmanninn ágætlega og við vorum bara á léttu spjalli. En svo klippti hann út megnið af því sem ég sagði og tekur inn það sem honum hentar."

„Ég benti til að mynda á að norskir fjölmiðlar birta sjálfir líklegt byrjunarlið Noregs daginn fyrir leik og það þarf engan stjörnufræðing til að átta sig á hvernig þeir munu líklega spila."

Rúnar segir að hann hafi hringt í Nils Johan Semb, yfirmann knattspyrnumála hjá norska knattspyrnusambandinu, eftir að málið kom upp í gær.

„Ég vildi vera viss um að hið rétta kæmi fram í málinu og hann sagði mér að þeir litu þetta ekki alvarlegum augum. Enda var þetta bara uppspuni hjá þessum fjölmiðli og í raun dæmigert fyrir þá norsku. Þeir fylgjast mjög vel með."

En Rúnar viðurkenndi að þetta hafi ekki litið vel út í fréttinni. „Nei, þarna sat ég með risastóra myndavél fyrir aftan mig og eitthvað að fikta í græjunum," sagði hann og hló. „En það var allt og sumt. Ég lét mig hverfa á sama tíma og fjölmiðlamennirnir."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×