Innlent

Hæstaréttarlögmaður: Almenn niðurfærsla lýsir taugaveiklun

Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður og formaður Lögmannafélags Íslands.
Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður og formaður Lögmannafélags Íslands. Mynd/GVA
Formaður Lögmannafélagsins segir eignarréttinn varinn af stjórnskránni og Alþingi ekki geta með einu pennastriki svipt kröfueiganda eignum sínum. Hann segir að flokka eigi hugmyndir um niðurfærslu sem taugaveiklun og ráðaleysi.

Undanfarna daga hefur stíft verið fundað um útreikninga og hugmyndir varðandi lausn á vanda skuldugara heimila. Ríkisstjórnin skoðar nú blandaða leið til að mæta vanda skuldugustu heimilanna en almenn niðurfærsla lána virðist út af borðinu. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að svo mikil andstaða væri við tillögur um flata niðurfellingu að þær væru væntanlega út af borðinu.

Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður og formaður Lögmannafélags Íslands, fjallar um málið í pistli á Pressunni í dag. Hann segir að svo virðist sem að gleymst hafi að lesa stjórnarskrána. Fjárkrafa sé eign og eignarétturinn sé varinn í stjórnarskránni.

„Löggjafinn getur því ekki með einu pennastriki niður við Austurvöll svipt kröfueiganda eignum sínum. Ef löggjafinn vill greiða skuldir fólks að hluta eða öllu leyti úr ríkissjóði er hins vegar ekkert við því að segja. Það verða því engar niðurfærslur á skuldum nema kröfueigandi samþykki," segir Brynjar og bætir við að kröfueigandi muni aldrei samþykkja niðurfærslu nema að hann sjái sér hag í því. Kröfueigandi gæti séð hag í niðurfærslu á skuld í einstökum tilvikum en tæplega í almennri niðurfærslu skulda.

„Þungaviktarmaður í heimi hagfræðinnar kallaði þetta niðurfærslutal lýðskrum á Rás 2 á dögunum. Ég er ekki viss um það sé rétt. Nær væri að flokka þetta tal undir taugaveiklun og ráðaleysi," segir Brynjar í pistlinum sem hægt er að lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×