Innlent

Segir réttaróvissunni nú eytt

Valtýr Sigurðsson
Valtýr Sigurðsson
„Ég fagna þessum dómi því með honum er réttaróvissunni eytt.“

Þetta segir Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari um nýgenginn dóm Hæstaréttar. Með honum staðfestir Hæstiréttur að lögreglustjórar séu hæfir til þess að fara með rannsókn mála þar sem brotið er á lögreglumönnum í umdæmi þeirra.

Héraðsdómur Suðurlands vísaði frá dómi máli, þar sem brotið hafði verið á lögreglumanni á Selfossi, á þeirri forsendu að rannsóknin hefði farið fram í umdæmi lögreglumannsins. Lögreglustjórinn á Selfossi hefði því talist vanhæfur til að stjórna henni.

Úrskurðinn kærði ríkislögreglustjóri til Hæstaréttar og krafðist þess jafnframt að fimm dómarar hans myndu dæma í málinu, en ekki þrír eins og venjan er í málum af þessu tagi. Þetta gerði ríkissaksóknari í ljósi þess að fjórir undangengnir dómar Hæstaréttar höfðu verið misvísandi þar sem rétturinn vísaði tveimur málum frá, en dæmdi í tveimur.

Með þessu taldi ríkissaksóknari skapast réttaróvissu þegar kæmi til kasta héraðsdómstóla að dæma í brotamálum gegn lögreglumönnum.

Í nýgengnum dómi lagði Hæstiréttur fyrir Héraðsdóm Suðurlands að taka málið aftur til efnislegrar umfjöllunar. - jss



Fleiri fréttir

Sjá meira


×