Innlent

Lýsa yfir stuðningi við stjórn og forstjóra OR

Orkuveita Reykjavíkur.
Orkuveita Reykjavíkur.

Besti flokkurinn og Samfylkingin lýsa yfir fullum stuðningi við meirihluta stjórnar og forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur í hagræðingaaðgerðunum sem nú standa yfir samkvæmt bókun sem samþykkt var í dag.

Sennilega verður ráðist í fjöldauppsagnir hjá Orkuveitunni en heyrst hefur að allt að 80 starfsmenn gætu misst vinnuna.

Málið var tekið fyrir utan dagskrá í dag en það var Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem óskaði eftir umræðunni á borgarstjórnarfundi í dag. Hart var tekist á um málið en á meðal áhorfenda voru starfsmenn Orkvueitunnar. Þeir gengu út undir ræðu Dags B. Eggertssonar, oddvita Samfylkingarinnar.

Í bókun Besta flokksins og Samfylkingarinnar segir að flokkarnir lýsi yfir miklum samhug með öllu starfsfólki Orkuveitunnar á þessum erfiðu tímum.

svo segir orðrétt:

„Einnig tekur meirihlutinn heilshugar undir bókun stjórnarmanna OR þeirra Haraldar Flosa Tryggvasonar stjórnarformanns, Aðalsteins Leifssonar, Björns Bjarka Þorsteinsson, Helgu Jónsdóttur, Jóhanns Ársælssonar og Sóleyjar Tómasdóttur þann 15.október sl. en þar færa þau stjórnendum fyrirtækisins þakkir fyrir þá alúð sem lögð hefur verið í undirbúning þeirra sársaukafullu aðgerða í starfsmannamálum sem virðast óumflýjanlegar.

Þar kemur einnig fram ánægja með hversu rík rækt hefur verið lögð við að fylgja áherslum stjórnar í þessu ferli sem byggðust því að málefnaleg og samfélagsleg sjónarmið yrðu höfð að leiðarljósi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×