Enski boltinn

Capello áfram landsliðsþjálfari

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fabio Capello.
Fabio Capello. Nordic Photos / AFP

Fabio Capello verður áfram þjálfari enska landsliðsins en enska knattspyrnusambandið tilkynnti það í dag.

Capello er samningsbundinn sambandinu í tvö ár til viðbótar en engu að síður ákváðu forráðamenn þess að taka sér umhugsunarfrest um framtíð Capello eftir að England féll úr leik í 16-liða úrslitum á HM í Suður-Afríku.

Landsliðsnefnd sambandsins kom saman í dag og ákvað þetta. Ákvörðunin var svo samþykkt af stjórn enska knattspyrnusambandsins.

„Gengi landsliðsins olli okkur miklum vonbrigðum og því fannst okkur mikilvægt að taka okkur tíma til að íhuga málin. Við erum þrátt fyrir allt sannfærðir um að Fabio sé rétti maðurinn í starfið," sagði Sir Dave Richards, formaður landsliðsnefndarinnar.

„Við teljum að Fabio muni njóta góðs af reynslunni í Suður-Afríku og að það muni styrkja liðið fyrir Evrópukeppnina 2012."

Sjálfur sagðist Capello staðráðinn í að gera betur með enska liðið. „Ég er með fulla einbeitingu á undankeppni EM og þeim leikjum sem eru framundan," sagði hann en England mætir Ungverjalandi í vináttulandsleik í ágúst.

„Ég er afar stoltur af því að vera landsliðsþjálfari Englands og ég er staðráðinn í því að ná árangri."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×