Enski boltinn

Rafael Benítez: Aquilani veit alveg um hvað þetta snýst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alberto Aquilani.
Alberto Aquilani. Mynd/Getty Images

Rafael Benitez, stjóri Liverpool, segist ekkert vera búinn að gleyma Ítalanum Alberto Aquilani þótt að hann gefi honum nánast engin tækifæri með enska úrvalsdeildarliðinu.

Aquilani verður væntanlega líka á bekknum í kvöld þegar Liverpool sækir Wigan heim í ensku úrvalsdeildinni en liðið kemst upp í fjórða sætið með sigri. Suður-Ameríkumennirnir Javier Mascherano og Lucas verða væntanlega saman á miðju Liverpool í þessum mikilvæga leik í kvöld.

„Það er erfiður tími fyrir leikmann þegar hann er búinn að vera meiddur í langan tíma. Það er enn erfiðara að komast af stað þegar liðið er að spila vel. Ég sem stjóri verð að meta það hvort ég hafi efni á því að gefa honum tvo eða þrjá leiki þegar ég veit að hann er ekki kominn í sitt besta form því það gæti kostað liðið tap," segir Rafael Benitez en Alberto Aquilani hefur aðeins einu sinni spilað í allar 90 mínúturnar með Liverpool.

„Alberto er ekki vitlaus. Hann veit að liðið gengur fyrir og það skiptir mestu máli að því gangi vel. Það eina sem hann getur gert er að halda áfram að æfa vel og passa upp á það að vera klár þegar við þurfum á honum að halda. Það er samt mikilvægast fyrir alla að átta sig á því að við erum að hugsa um allt liðið en ekki einn leikmann," sagði Benitez.

„Ég er búinn að tala við Aquilani og hann veit alveg um hvað þetta snýst. Alberto er fagmaður. Hann var stórt nafn á ítalíu og hann vill sanna sig hér," sagði Benitez og ítrekaði það að það sé ekki ástand leikvallarins sem ráði því hvort Alberto Aquilani spili eða ekki.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×