Innlent

Ástandið í borginni skelfilegt

Óli Kristján Ármannsson og Klemens Ólafur Þrastarson skrifar
Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin hafði bjargað tveimur ungum konum og var að ná þeirri þriðju úr rústum matvörumarkaðar þegar blaðið náði tali af Lárusi Bjarnasyni, fjarskiptamanni, rétt fyrir klukkan átján að íslenskum tíma í gær.

Konurnar voru ekki slasaðar, en þjáðust af vatnsskorti og fengu vökva í æð.

„Ástandið hér er skelfilegt en við erum í nokkuð góðum gír," sagði Lárus Björnsson, fjarskiptamaður hjá Íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni. „Við tókum við í [gær]morgun af sveit heimamanna sem hafði verið að störfum um nóttina," segir hann.

Íslendingar á svæðinu eru alls 35 talsins og hafa sett upp búðir á flugvellinum í Port-au-Prince, höfuðborg Haítí. Þeir gera ráð fyrir að vera á staðnum í allt að sex sólarhringa í viðbót.

Sveitin var í hópi þeirra björgunarsveita sem fyrstar komu á hamfarasvæðið í gær, en hinar eru frá Kína, Bandaríkjunum, og Belgíu. Hópar frá íslensku og bandarísku sveitunum voru þeir fyrstu til að hefja eiginleg björgunarstörf á svæðinu, en heimamenn sjá um skipulagningu.

Konurnar fundust í rústum fjögurra hæða byggingar sem áður hýsti verslanamiðstöðvar á Caribbean Market.

Um níu þúsund friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna eru á Haítí og gæta þeir flugvallarsvæðisins. Nokkuð hefur borið á glæpum í kjölfar jarðskjálftanna og íslenska sveitin ætlar að biðja um að friðargæsluliðar fylgi henni við björgunarstörfin.

„Okkur finnst við nú ekki að í mikilli hættu en til að forðast að mönnum líði illa er kannski betra að hafa einn eða tvo friðargæsluliða með í för," segir Lárus. Hann þakkar að lokum stuðning að heiman og biður að heilsa heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×