Innlent

Hæstiréttur gæti grafið undan fjármálastöðugleikanum

Viðskiptafræðingur fullyrðir að Hæstiréttur grafi undan möguleikum Seðlabankans til að halda fjármálastöðugleika í landinu dæmi hann bönkunum í vil í hinni óleystu deilu um lögmæti myntkörfulána.

Fjölmörg heimili eru í vanda stödd vegna myntkörfulána, í árslok 2008 skulduðu heimilin um 300 milljarða í erlendum lánum. Enn er á huldu hvort lánin voru lögleg, tveir dómar hafa fallið - hvor í sína áttina. Báðum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.

Annar dómurinn lítur svo á að lánið hafi verið veitt í erlendri mynt, og var niðurstaðan bílalánafyrirtækinu í vil - í hinu að bílalánið hafi raunverulega verið krónulán og því bannað að binda það gengi erlendra mynta.

Margir berjast nú fyrir því að þessi gengislán verði endurmetin á einhvern hátt til að leiðrétta stökkbreytinguna sem á þessum lánum varð við hrun krónunnar. Segja má að baráttumenn skiptist í tvær fylkingar - annars vegar eru þeir sem benda á að lánin hafi í raun verið í krónum og lög banni gengistryggingu krónulána. Hin túlkunin er að lánin séu vissulega í erlendum myntum - en að jafnvirði upphæðar í íslenskum krónum. Það sé því bankinn sem beri áhættuna þegar krónan hrynur - ekki Jón Jónsson sem tók lánið.

Sveinn Óskar heldur þessu síðarnefnda fram - sem þýðir að hafi Jón tekið 20 milljóna króna lán fyrir húsinu í jenum og frönkum - þá skuldi hann enn í dag 20 milljónir, mínus afborganir - en upphæð lánsins í jenum og frönkum hafi hins vegar lækkað. Sum sé að lánsupphæðin sveiflist ekki í krónum - heldur erlendu myntunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×