Innlent

Lánveitingar með veði í eigin hlutabréfum verða bannaðar

Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson ganga af fundi í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í október 2008. Í nýju frumvarpi um bankana er meðal annars lagt bann við svonefndum starfandi stjórnarformönnum en Sigurður gegndi slíku hlutverki í Kaupþingi. fréttablaðið/valli
Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson ganga af fundi í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í október 2008. Í nýju frumvarpi um bankana er meðal annars lagt bann við svonefndum starfandi stjórnarformönnum en Sigurður gegndi slíku hlutverki í Kaupþingi. fréttablaðið/valli
Fjármálafyrirtæki er óheimilt að veita lán sem eru tryggð með veði í hlutabréfum eða stofnfjárbréfum útgefnum af fyrirtækinu, samkvæmt frumvarpi efnahags- og viðskiptaráðherra til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki. Þá er fjármálafyrirtæki óheimilt að veita lán til stjórnarmanns, lykilstjórnanda eða þess sem á virkan eignarhlut í viðkomandi fyrirtæki nema með þröngum skilyrðum.

Hvort um sig, lán til kaupa á hlutabréfum í banka með veði í bréfunum og lánveitingar til lykilstarfsfólks, hefur verið talið eiga sinn þátt í hruni bankanna haustið 2008.

Fram hefur komið að bankarnir lánuðu háar fjárhæðir til kaupa á hlutabréfum í þeim sjálfum gegn veði í bréfunum. Voru það ekki síst æðstu stjórnendur bankanna sem fengu slík lán. Mál af því tagi er meðal þess sem tekið hefur verið til rannsóknar í kjölfar bankahrunsins.

Þá er í frumvarpinu fjallað um hvatakerfi, kaupauka og starfslokasamninga. Verður fjármálafyrirtækjum heimilt að veita kauprétt eða kaupaukagreiðslur í samræmi við reglur sem Fjármálaeftirlitið setur. Eiga þær að taka mið af tilmælum Evrópusambandsins þar um. Þeirra helst eru að jafnvægi skuli vera milli fastra launa og bónusgreiðslna. Fresta skal greiðslu bónuss séu aðstæður í rekstri eða hagkerfinu þess eðlis. Þá skulu mælingar á frammistöðu taka til lengri tíma svo tryggt sé að tekið sé tillit til langtímaárangurs. Fjármálafyrirtæki ættu jafnframt að eiga kost á að krefjast endurgreiðslu á bónusgreiðslum ef í ljós kemur að þær hafa verið byggðar á röngum upplýsingum.

Í frumvarpinu er einnig lagt bann við að í fjármálafyrirtækjum skuli vera svokallaðir starfandi stjórnarformenn. Er talið að slíkt fyrirkomulag bjóði heim hættunni á hagsmunaárekstrum enda eigi stjórnarmenn að hafa eftirlit með framkvæmdastjóra og því varhugavert að þeir hafi jafnframt með höndum verkefni sem eiga að vera í höndum framkvæmdastjóra.

Formaður nefndarinnar sem samdi frumvarpið var Kjartan Gunnarsson, skrifstofustjóri í efnhags- og viðskiptaráðuneytinu, en í henni sátu auk hans fulltrúar Fjármálaeftirlitisins, Samtaka fjármálafyrirtækja og Samtaka fjárfesta.

bjorn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×