Innlent

Formenn þingflokkanna fá ekki laun í leyfum sínum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Helgi Bernódusson segir að þingmennirnir fái ekki greitt í leyfum sínum.
Helgi Bernódusson segir að þingmennirnir fái ekki greitt í leyfum sínum.
Þeir Björgvin G. Sigurðsson og Illugi Gunnarsson verða ekki á launum í leyfum sínum, segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis.

Illugi Gunnarsson sagði í dag að hann myndi taka sér leyfi frá þingstörfum á meðan að sérstakur saksóknari fjallaði um málefni peningamarkaðssjóðanna. Illugi var stjórnarmaður í sjóði níu hjá Glitni. Björgvin G. Sigurðsson sendi frá sér tilkynningu í gær um að hann myndi taka sér leyfi frá þingstörfum á meðan að fjallað væri um það sem að honum lýtur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hann var viðskiptaráðherra við hrun bankanna.

Helgi segir að í lögum um þingfarakaup sé ekki gert ráð fyrir að menn séu á launum þegar þeir taki sér leyfi nema þegar þeir fara af þingi í opinberum erindagjörðum. Þessi regla gildi jafnt um alla.

Svo háttar til að bæði Björgvin G. Sigurðsson og Illugi Gunnarsson voru báðir formenn þeirra þingflokka sem þeir áttu sæti í. Ekki liggur fyrir hverjir taka við formennsku í stað þeirra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×