Innlent

Löng leið að eilífu sumri

Krían (sterna paradisaea) er sjófugl af þernuætt. Hún er farfugl á Íslandi og verpir hér og annars staðar á norðurslóðum. Hún er aðeins um 38 sentimetrar á lengd og um hundrað grömm að þyngd.  fréttablaðið/gva
Krían (sterna paradisaea) er sjófugl af þernuætt. Hún er farfugl á Íslandi og verpir hér og annars staðar á norðurslóðum. Hún er aðeins um 38 sentimetrar á lengd og um hundrað grömm að þyngd. fréttablaðið/gva
Lengi hafa menn horft til kríunnar með aðdáun fyrir þolgæði og hversu hatrammlega hún ver hreiður sitt og unga. Skiptir þá engu hvort á í hlut maður eða skepna. Ný rannsókn hefur leitt í ljós að það sem við töldum okkur vita um hana virðist stórlega vanmetið.

Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) er sagt frá nýrri grein í bandaríska vísindaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences þar sem koma fram nýjar upplýsingar um farhætti kríunnar. Alþjóðlegur samstarfshópur vísindamanna, þeirra meðal frá Íslandi, hafa komist að því að krían flýgur meira en 70 þúsund kílómetra á árlegu farflugi á milli póla. Þetta er nálægt því að vera helmingi lengri leið en krían var talin ferðast árlega á milli varpstöðva á norðurslóðum til vetrarheimkynna við Suðurheimskautið. Reyndar er um meðaltal að ræða og merktir fuglar í rannsókninni bættu sumir hverjir við sig tíu þúsund kílómetrum til viðbótar.

Þetta er ekki síst athyglivert fyrir þá sök að krían er aðeins um 38 sentimetrar á lengd og um hundrað grömm að þyngd. Niðurstöður rannsóknarinnar undirstrika þá staðreynd að kríur ferðast lengra en nokkur önnur dýr á sínu árlega farflugi. Ný tækni
Farflug kríunnar Einfölduð mynd af farháttum kría, frá því þær yfirgefa varpstöðvar á Grænlandi og Íslandi síðsumars og mæta á vetrarstöðvarnar við Suður­heim­skautið. Skömmu eftir að þær byrja ferðalagið suður (gula línan) staldra fuglarnir við á miðju Norður-Atlantshafi (lítill hringur) í um mánaðartíma áður en þeir halda áfram. Vetrarheimkynni við Suðurheimskautið eru í Weddell-hafinu suður og austur af Suður-Ameríku (stór hringur). Heimferðin norður á bóginn undir vor (hvíta línan) tekur yfir tvisvar sinnum styttri tíma en suðurferðin. Fuglarnir fljúga eftir ferli sem er eins og stórt „S“ norður eftir miðju Atlantshafi. Þeir reyna að koma við á svæðum sem eru fæðurík en slík hafsvæði eru sýnd í gulum eða grænum litum. Mynd/náttúrufræðistofnun
Ekki hefur verið mögulegt að fylgjast nákvæmlega með ferðum svo lítilla fugla fyrr en á allra síðustu árum. Hér kemur til nýleg tækni, lítið tæki sem kallast ljósriti („geolocator“) og er aðeins 1,4 grömm á þyngd. Tækinu er komið fyrir á fæti fugla og mælir reglulega ljósmagn sem gerir mögulegt að ná tveimur staðsetningum fyrir fugl á hverjum degi. „Notkun slíkra tækja á sjófugla hefur ekki aðeins gjörbreytt þekkingu okkar á farháttum þeirra, heldur koma niðurstöðurnar sem tækin veita einnig að góðum notum til að kortleggja hvar lífrík hafsvæði er að finna,“ segir Richard Phillips frá bresku heimskautastofnuninni og meðhöfundur að greininni. Rannsóknaniðurstöður sýna að atferli fugla er nátengt bæði lífrænum og ólífrænum þáttum umhverfisins.

Ævar Petersen, dýrafræðingur á NÍ, er í hópi vísindamannanna. Hann segir að það sem kom honum mest á óvart var að krían tók ekki beint strik suður á bóginn eftir að þær yfirgáfu varpstöðvarnar síðsumars, heldur eyddu þær um það bil mánuði á takmörkuðu svæði á miðju Norður-Atlantshafi, um þúsund kílómetrum norðan Asóreyja. „Það er ekki síst vegna þess að það tengist öðrum niðurstöðum sem við höfum verið að fá meðal annars um lunda frá Vestmannaeyjum. Þeir halda sig á sömu slóðum. Svo eru fleiri fuglar sem vitað er að fara þarna um.“

Ævar segir að nýju ljósritarnir hafi bylt rannsóknum á fuglum á undanförnum árum og væntanlegar séu nýjar upplýsingar um fjölda fuglategunda. Makalaust ferðalag
Kría
Eftir þá viðdvöl héldu fuglarnir áfram suður undan ströndum Norðvestur-Afríku en nálægt Grænhöfðaeyjum gerðist annað sem vakti athygli rannsóknarmanna og var ekki vitað áður. Í stað þess að halda áfram suður undan ströndum Afríku sveigði um helmingur fuglanna vestur yfir Atlantshaf og hélt áfram suður með ströndum Suður-Ameríku. Þegar fuglarnir voru komnir suður undir Argentínu, þar sem eru afar næringarrík hafsvæði, tóku sumir beint strik til vetrarstöðvanna í Weddell-hafinu. Vísindamönnum til undrunar héldu aðrar kríur frá Suður-Ameríku með staðvindum beint austur til Suður-Afríku. Þaðan héldu þær – og fuglarnir sem komu suður með vesturströnd Afríku – til vetrarstöðvanna, en eftir mismunandi leiðum enn og aftur. Sumar kríur, og þar á meðal ein íslensk, fóru langleiðina til Ástralíu áður en þær sneru aftur vestur á bóginn til Weddellhafsins þar sem fuglarnir héldu til í þrjá til fjóra mánuði meðan vetur var á norðurslóðum.

Heimferðin til varpstöðvanna á norðurhveli tekur meira en tvöfalt styttri tíma en ferðalagið suður á bóginn, eða aðeins um fjörutíu daga. Áhugavert er að kríur velja allt aðra leið norður en í suðurferðinni og heldur ekki stystu leið. Þær halda norður eftir miðju Atlantshafi eftir ferli sem er eins og risastórt „S“. Norðurferðin er nokkur þúsund kílómetrum lengri en beinasta leið sem þær gætu tekið. Með því nýta fuglarnir sér ríkjandi veðurkerfi sem stjórnast af snúningi jarðar og spara þannig mikla orku. Fimmtíu hnattferðirKríur eru eins og aðrir sjófuglar, langlíf, og getur lifað yfir þrjátíu ár. Þær ferðast ár hvert póla á milli og því freistandi að leika sér að tölum. Séu ferðirnar lagðar saman fljúga kríur sem ná slíkum aldri um 2,1 milljón kílómetra á ævinni. Ummál jarðar er um fjörutíu þúsund kílómetrar og krían flýgur því yfir fimmtíu sinnum í kringum jörðina í leit sinni að eilífu sumri.

svavar@frettabladid.is

Sjá: www.arctictern.info og www.ni.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×