Innlent

Vegfarendur pissa á lóð í Hrútafirði: „Ömurlegur dónaskapur“

Afleggjarinn við Hvammstanga.
Afleggjarinn við Hvammstanga. Mynd/Pjetur
„Við vorum bara svo hissa að við stóðum bara og gerðum ekki neitt," segir Þórunn Helga Þorvaldsdóttir húsfreyja á bænum Akurbrekka í Hrútafirði. Um hádegisbilið í dag var hún ásamt börnum sínum inn í eldhúsi þegar að tveir bílar keyra inn á lóð bæjarins og inn fyrir hliðið. Þar hleypa bílstjórarnir börnum út til að pissa. Það var RÚV sem greindi fyrst frá málinu.

„Það er eins og fólk fatti ekki að þetta sé heimilið manns, við myndum aldrei gera svona í Reykjavík," segir Þórunn í samtali við Vísi, en börnin hennar voru alveg gapandi að hennar sögn. „Svo snúa menn sér alltaf að húsinu og frá veginum."

Hún segist oft hafa lent í því að fólk pissi á lóð hennar. „En við höfum aldrei lent í því að fólk fari svona langt, að það fari inn fyrir hliðið okkar til að gera þarfir sínar." Þórunn segist halda að fólkið hafi verið Íslendingar. „Það er alltaf verið að stoppa við sveitabæi víðsvegar um land og fólk gerir þarfir sínar."

Þórunn hefur oft fundið bleyjur og rusl á lóð sinni, þá segist hún hafa séð fólk stoppa við bæinn til að æla. „Þetta er ömurlegur dónaskapur, póstkassinn okkar er þarna alveg út við þjóðveg og við löbbum þangað og náum í póstinn okkar," segir hún og vill koma þeim skilaboðum til almennings að velja aðra staði til að gera þarfir sínar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×