Innlent

Stjórnin viðurkenni að Íslendingar þurfi betri samning

Framsóknarmenn setja það sem skilyrði fyrir pólitískri samstöðu í Icesave málinu að ríkisstjórnin lýsi því yfir að Íslendingar þurfi betri samning.

Þverpólitísk sátt í Icesave málinu er talin vera forsenda þess að Íslendingar geti hafið nýjar samningaviðræður við Breta og Hollendinga.

„Við verðum að reyna það að minnsta kosti þó að við höfum ekki verið ánægð með það hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á þessu," segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, aðspurður hvort hann telji líklegt að pólitísk sátt náist í Icesave málinu.

Hann segir að stjórnin hafi byrjað að senda út yfirlýsingar þar sem ítrekað hafi verið að Íslendingar ætluðu að ábyrgjast allar innistæður.

„Síðan í framhaldinu koma alls konar yfirlýsingar um að yfir standi örvæntingarfullar viðræður við Breta og Hollendinga. Utanríkisráðherra segir að við séum í herkví. Þetta er ekki til þess fallið að hjálpa málstað Íslendinga. Þess vegna gerum við kröfu um það að ríkisstjórnin að minnsta kosti lýsi því yfir að við þurfum að fá betri samning. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að stjórnvöld í landinu taki að minnsta kosti undir með almenningi og þeim sem vilja okkur vel í útlöndum og segi að við þurfum að gera betur," segir Sigmundur Davíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×