Innlent

Fiskistofa í dulargervi

Starfsmenn Fiskistofu beittu nýstárlegum aðferðum þegar þeir komu upp um löndunarsvindl á Suðureyri fyrr í vikunni. Þrír voru handteknir og er málið nú í höndum lögreglu.

Starfsmenn Fiskistofu hafa um nokkurt skeið fylgst með fiskvinnslunni Íslandssögu á Suðureyri vegna gruns um að þar sé brögð höfð í tafli við vigtun á afla. Á þriðjudaginn gripu Fiskistofumenn til sinnar ráða. Þeir fóru til Suðureyrar en þegar þangað var komið þóttust þeir vera erlendir stjóstangveiðimenn til að vekja ekki á sér athygli niðrá höfn.

Þetta gerði þeim kleyft að fylgjast með starfsmanni fiskvinnslunar keyra afla frá vélbátnum Valgerði BA að fiskvinnsluhúsinu. Aðeins hluti aflans fór á hafnarvogina en hluti aflans var settur inn í stæðu af tómum körum við höfnina. Þegar Fiskistofumenn sáu að löndun var lokið og að hluta aflans hafði verið landað framhjá vigt gáfu Fiskistofumenn sig fram og kölluðu á lögreglu.

Þrír voru handteknir í kjölfarið og færðir til yfirheyrslu á Ísafirði. Þar á meðal hafnarvörðurinn á Suðureyri og verkstjóri hjá fiskvinnslunni Íslandssögu. Rannsókn málsins er í höndum lögreglunnar á Ísafirði sem tekur ákvörðun um framhald málsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×