Enski boltinn

Ruud van Nistelrooy ráðleggur Berbatov að vera áfram hjá United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dimitar Berbatov.
Dimitar Berbatov. Mynd/Getty Images
Ruud van Nistelrooy segir að það væri algjör vitleysa hjá Dimitar Berbatov að fara frá Manchester United en þetta hefur verið erfitt tímabil fyrir Búlgarann á Old Trafford. Ruud van Nistelrooy var í fimm ár hjá Manchester United en fór frá félaginu árið 2006.

„Ég tel að það væri ekki rétt hjá honum að fara strax. Þetta er bara annað árið hjá honum og hann verður að gefa þessu meiri tíma. Ég myndi ekki gefast upp svona fljótt enda veit ég vel hvernig það er að yfirgefa United og geta ekki komið aftur," sagði Ruud van Nistelrooy með smá söknunartón.

„Ég var heppinn. Ég var heppinn með að spila með Real Madrid eftir að hafa verið hjá United. Það er eitt af fáum liðum sem standast samanburðinn og núna veit ég hvernig það er að spila fyrir svona risafélög. Það eru ekki allir sem fá að kynnast því," sagði Ruud van Nistelrooy.

Ruud van Nistelrooy finnur samt til með Berbatov. „Hann var keyptur á 30 milljónir punda og því fylgdi miklar væntingar. Hann hefur ekki skilað öllu sem var búist við af honum og hann er ekki fastamaður í liðinu. Hann hefur samt stuðning frá stjóranum og félögum sínum í liðinu og það væri best fyrir hann að halda áfram og reyna að breyta þessari þróun," sagði Ruud van Nistelrooy við The Guardian.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×