Innlent

Húnvetningar fjalla um vegstyttingu

Stytting hringvegarins framhjá Blönduósi um fimmtán kílómetra er án nokkurs vafa ein arðbærasta framkvæmd sem hægt er að ráðast í hér á landi. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar við Háskólann í Reykjavík. Í Húnavatnssýslum berjast heimamenn gegn því að Vegagerðin nái fram áformum sínum.

Hugmyndin að leggja sextán kílómetra veg frá Stóru-Giljá, framhjá Húnavallaskóla, og þvert inn í miðjan Langadal, með nýrri brú á Blöndu, hefur lengið verið til skoðunar. Fyrir þremur árum taldi Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri þessa styttingu skila 27 prósenta arðsemi, sem þýðir að hún myndi borga sig upp á fjórum árum.

Nú í desember voru birtir nýir hagkvæmniútreikningar; í lokaverkefni Sigbjörns Björnssonar í byggingartæknifræði við Háskólann í Reykjavík. Samkvæmt þeim er arðsemin 21 prósent, - sem þýðir að vegurinn borgi sig upp á fimm árum. Er niðurstaðan sú að þetta sé ein arðbærasta framkvæmd sem hægt er að ráðast í hér á landi. Þó er tekið fram að íbúar Blönduóss yrðu fyrir einhverjum neikvæðum áhrifum vegna minni viðskipta við þjónustuaðila í bænum.

Og þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Vegagerðin hefur óskað eftir því að fá vegstyttinguna inn á aðalskipulag viðkomandi sveitarfélaga. Íbúafundur í Húnavatnshreppi í gærkvöldi skoraði á sveitarstjórnina að hafna ósk Vegagerðarinnar og nú síðdegis hófst íbúafundur á Blönduósi þar sem fastlega er búist við að erindi vegagerðarmanna fái sömuleiðis óblíðar móttökur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×