Íslenski boltinn

Jón Guðni: Við vorum með góð tök á leiknum allan tímann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úr leik Fram og Keflavíkur í kvöld.
Úr leik Fram og Keflavíkur í kvöld. Mynd/Valli
Framarar unnu 2-1 sigur á Keflavík í lokaleik 19. umferðar Pepsi-deildar karla á Laugardalsvellinum í kvöld. Jón Guðni Fjóluson og félagar eru á góðu skriði en þeir unnu þarna sinn þriðja leik í röð.

„Það er stefnan að reyna koma okkur ofar í töfluna en við ætlum að reyna að klára þetta mót almennilega eftir að hafa átt lélegan kafla um mitt mót. Það eina sem við getum gert er að klára okkar leiki og vona það besta," sagði Framarinn Jón Guðni Fjóluson sem varð fyrir því óláni að jafna leikinn fyrir Keflavík með því að setja boltann í eigið mark.

„Sjálfsmark eða ekki sjálfsmark. Ég fæ hann í andlitið og þaðan fer hann í markið," sagði Jón Guðni sem var vissulega óheppinn þegar Hannes Þór Halldórsson markvörður liðsins varði fasta fyrirgjöf í hann og inn.

„Mér fannst við vera með góð tök á leiknum allan tímann.Við fáum á okkur þetta klaufalega mark og vorum smá tíma að rífa okkur upp úr því. Við náðum síðan að klára þetta almennilega og áttum að skora fleiri mörk," sagði Jón Guðni sem horfir upp til fjórða sætisins en þar sitja KR-ingar með fimm stigum meira þegar þrjár umferðir eru eftir.

„Það gengur vel núna og það er gaman þegar að það gengur vel. Meðan það er tölfæðilegur möguleiki á fjórða sætinu þá er möguleiki. Við reynumbara að klára okkar leiki og vona það besta," sagði Jón Guðni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×