Fótbolti

Luis Suarez beit andstæðing - myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úrúgvæinn Luis Suarez, leikmaður Ajax í Hollandi, gæti verið á leiðinni í langt keppnisbann eftir að hann beit Otman Bakkal, leikmann PSV, í leik liðanna um helgina.

Suarez beit í öxl Bakkal en dómari leiksins, Bjorn Kuipers, tók ekki eftir atvikinu. Hollenska knattspyrnusambandið mun nú taka málið upp en eins og sjá má hér gefa sjónvarpsupptökur ekki annað í skyn en að þetta hafi verið tilfellið.

Suarez fékk heimsathygli á HM í Suður-Afríku í sumar er hann handlék knöttinn á eigin marklínu og kom í veg fyrir að Ganverjar næðu að skora sigurmarkið í leik liðanna í fjórðungsúrslitum keppninnar.

Atvikið átti sér stað á lokamínútu framlengingar leiksins en eins og frægt er misnotaði Gyan vítaspyrnuna sem dæmd var í kjölfarið. Úrúgvæ tryggði sér svo sæti í undanúrslitunum með því að vinna Gana í vítaspyrnukeppni en Suarez missti af þeim leik þar sem hann fékk eðlilega að líta rauða spjaldið fyrir markvörsluna ólöglegu.

Eins og eðlilegt er þykir athæfi Suarez um helgina minna á eitt frægasta atvik íþróttasögunnar er Mike Tyson beit af hluta af eyra Evander Holyfield í hnefaleikabardaga þeirra árið 1997.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×