Innlent

Getur tekið á móti 160 leikskólabörnum fyrir ísbjarnarfé

Það mun kosta miklu meira en 250 milljónir króna að koma ísbirni fyrir í Húsdýragarðinum. Þetta segir forstöðumaður Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, um hugmyndir verðandi borgarstjóra. Formaður Samtaka sjálfstæðra skóla bendir á að fyrir sömu upphæð gæti borgin tekið á móti 160 börnum í leikskóla.

Jón Gnarr, verðandi borgarstjóri Reykjavíkur tilkynnti, í gær að hann vildi stefna að því að koma fyrir ísbirni í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Tómas Óskar Guðjónsson, forstöðumaður garðsins, segir hugmyndir Jóns góðar en þær muni kosta sitt. Framsóknarmenn hafa skotið á að það muni kosta um 250 milljónir að koma dýrinu fyrir í garðinum en Tómas telur það varlega áætlaða upphæð.

Tómas segist sjálfur vilja koma mörgum öðrum hlutum framar á forgangslista í garðinum þótt honum þætti það ánægjuleg tilhugsun að geta haft hvítabjörn tímabundið sem hingað gæti villst til lands. Það verði þó að gera almennilega. Aðstaða á borð við þá sem var í Sædýrasafninu á sínum tíma þyki ekki boðleg dýrum nú.

Þá telja margir að önnur kostnaðarsöm verkefni hjá borginni þyrfti að setja framar forgangslista. Margrét Pála Ólafsdóttir, skólastjóri og formaður Samtaka sjálfstæðra skóla, bendir á að fyrir ísbjarnarfé væri til að mynda hægt að sjá 160 börnum fæddum 2009 fyrir leikskólaplássi.

„Ég gæti gert óendanlega margt fyrir 250 milljónir. Það fyrsta sem ég myndi gera væri að fjölga plássum fyrir börn sem eru fædd í byrjun árs 2009 sem eru ekki ennþá komin inn. Ég heyri í fjölmörgum foreldrum sem eru komnir í vandræði," segir Margrét Pála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×