Enski boltinn

Benitez segir að Torres sé ánægður hjá Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Torres.
Fernando Torres. Mynd/AFP
Það gæti stefnt í "Cristiano Ronaldo-sumar" á Anfield þar sem ensku fjölmiðlarnir munu keppast við að skrifa reglulega um hugsanlegt brotthvarf Fernando Torres frá Anfield. Spánverjinn var orðaður við Manchester City og Juventus í blöðunum í morgun.

Manchester City var í morgun sagt vera tilbúið með 50 milljón punda tilboð í Torres en nú hefur Rafael Benitez, stjóri Liverpool, gefið það út að City hafi litla sem enga möguleika á að fá Torres til að yfirgefa Liverpool.

„Fernando er ánægður hjá Liverpool og hann vill vera hér í mörg ár til viðbótar. Ég hef engar áhyggjur af honum," sagði Rafael Benitez í útvarpsviðtali á BBC Radio 5.

Fernando Torres er með samning við Liverpool til ársins 2014 en hann hefur skorað 72 mörk í 116 leikjum fyrir Liverpool frá því að hann var keyptur til félagsins frá Atletico Madrid í júlí 2007.

Torres hefur ekki náð að vinna titil hjá Liverpool og nú er orðið ljóst að liðið verður ekki með í Meistaradeildinni á næsta tímabili.

„Aðalatriðið fyrir Torres er að ná sér góðum af meiðslunum og gera sig kláran fyrir HM. Hann hefur alltaf sagt það að hann sé ánægður á Anfield, vonandi nær hann sér að fullu af þessum meiðslum og skorar fullt af mörkum fyrir félagið í framtíðinni," sagði Benitez.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×