Innlent

„Heilli kynslóð stjórnmálamanna mútað“

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Benedikt Erlingsson segist vera hlynntur því að fólk tjái sig í gerðum, en ekki bara orðum. Mynd/ Heiða.
Benedikt Erlingsson segist vera hlynntur því að fólk tjái sig í gerðum, en ekki bara orðum. Mynd/ Heiða.
„Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að heilli kynslóð stjórnmálamanna hefur verið mútað með beinum eða óbeinum hætti og stjórnmálaflokkarnir hafa komið í ljós sem þjófafélag," segir Benedikt Erlingsson leikari. Hann er einn af mörg hundruð mönnum sem krefjast þess að fallið verði frá ákæru ríkissaksóknara á hendur níu mótmælendum sem gefið er að sök að hafa ráðist á Alþingi í Búsáhaldabyltingunni í fyrra.

„Ég er meðmæltur pólitískum aktívisma. Mér finnst að fólk eigi að tjá sig líka í gerðum, sé fyllsta velsæmis gætt og menn beiti ekki ofbeldi. Það virðist ekki vera hægt að segja það að fólkið hafi beitt ofbeldi," segir Benedikt.

Benedikt segir að framundan sé uppgjör við fjölmiðlana og stjórnmálaflokkana. Það verði að takast á við það ef menn vilji búa til betra samfélag. „Og það er náttúrlega bara skylda okkar að verja þessa borgara, sem núna eru teknir eins og inn á teppið hjá skólastjóranum," segir Benedikt. Hann segist telja að þessi níu, sem ákærðir eru, hafi verið í fullum rétti að fara upp á þingpalla og æpa þó þau hafi verið að brjóta einhver lög.

„Þetta er bara nákvæmlega það sem Ghandi og borgaraleg óhlýðni stendur fyrir. Það er að brjóta lög en aldrei beita ofbeldi. Af því að við viljum ekki drepa óvini okkar heldur bara breyta hugmyndum þeirra," segir Benedikt Erlingsson, leikarinn ástsæli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×