Innlent

Hönnun samgöngumiðstöðvar boðin út í næsta mánuði

Reykjavíkurflugvöllur. Mynd/ Vilhelm.
Reykjavíkurflugvöllur. Mynd/ Vilhelm.

Hönnun samgöngumiðstöðvar á Reykjavíkurflugvelli verður boðin út í næsta mánuði og smíði hafin fyrir áramót, eftir að ríki og borg náðu í gær samkomulagi um skipulagsmál. Samgönguráðherra vonast til að miðstöðin verði tilbúin innan tuttugu mánaða.

Samgöngumiðstöð hefur verið valinn staður á lóð norðan við Loftleiðahótelið. Sérstakur stýrihópur ríkis og borgar gekk í gær frá samkomulagi um öll meginatriði, meðal annars um að fyrsti áfangi verði 3.200 fermetrar, að bílakjallari verði við húsið og að starfsemi BSÍ flytjist einnig í samgöngumiðstöðina ásamt innanlandsfluginu.

Kristján L. Möller samgönguráðherra segir að ákaflega gott samstarf hafi verið við borgaryfirvöld og það sé lykillinn að því að þetta sé að takast. Ríki og borg hafi unnið vel og þétt saman.

Kostnaður er áætlaður um tveir milljarðar króna og munu lífeyrissjóðir fjármagna verkið. Það verður svo endurgreitt með þjónustugjöldum leigutaka og brottfarargjaldi, sem farþegar eru þegar að greiða í innanlandsflugi. Það færist yfir, að sögn ráðherra, og þannig á viðskiptamódelið að ganga upp.

Stefnt er að því hönnun hússins verði boðin út í næsta mánuði og að smíðin hefjist fyrir áramót. Kristján L. Möller telur að hún taki 12-14 mánuði og vonast til að byggingin verði tilbúin um áramótin 2011-2012.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.